Andvari - 01.01.1981, Page 86
84
AGNAR k L. JÓNSSON
ANDVARl
II
Eins og getið var hér að framan, bar ráðherra Islands, er búseta hans hafði
verið ákveðin í Reykjavík, að fara svo oft sem nauðsyn var á til Kaupmanna-
hafnar til að bera upp fyrir konungi í ríkisráðinu lög og mikilvægar stjórnar-
ráðstafanir. Samkvæmt dönsku grundvallarlögunum er ríkisráðið stofnun, þar
sem allir ráðherrarnir eiga sæti undir forsæti konungs eða staðgöngumanns
hans. Ríkiserfinginn á einnig rétt til setu í ríkisráðinu, þegar hann er orðinn
lögráða. Gerðir ríkisráðsins eru bókaðar af ríkisráðsritara, og er þá upptalið,
hvaða aðilar sitja þessa fundi ráðsins. Samskonar eða svipaðar formreglur um
setu í ríkisráði hafa gilt hér á landi eftir að ríkisráðið varð íslenzk stofnun,
þegar Island var viðurkennt fullvalda ríki 1918, og svo hefur einnig verið
eftir stofnun lýðveldisins 1944.
Öll stjórnarfrumvörp voru borin upp tvisvar í ríkisráðinu, fyrst í því skyni
að afla heimildar konungs til að leggja þau fyrir Alþingi, og væru þau samþykkt,
breytt eða óbreytt, voru þau eins og önnur frumvörp, sem fengu fullnaðar-
afgreiðslu á Alþingi, borin upp til staðfestingar. Stjórnarráðstafanir, eða ráð-
stafanir umboðslegs eðlis, voru hins vegar því aðeins bornar upp í ríkisráðinu,
ef þær voru taldar mikilvægar, eins og segir í stjórnskipunarlögunum, og var
það á valdi ráðherrans að ákveða um það. Samkvæmt þessu ákvæði var því
opin leið til að bera fjölda hinna ólíkustu mála upp í ríkisráðinu, ef þau að dómi
ráðherra töldust mikilvægar stjórnarráðstafanir.
Þegar mál voru afgreidd á ríkisráðsfundi, var það gert eftir ákveðnum
reglum og í sérstöku formi. Ráðherra gerði tillögu um, að lög yrðu staðfest,
bráðabirgðalög gefin út o. s. frv. Skrifaði þá konungur orðin „Fellst á til-
löguna“ fyrir neðan fyrirsögnina, ef hann var tillögunni samþykkur, og svo
var oftast, og setti síðan nafn sitt undir lögin eða skjal það, sem um var að
ræða. Ráðherrann undirskrifaði svo lögin eða skjalið með konungi, og fékk
þá afgreiðslan fullt gildi á ábyrgð ráðherra. Þetta sama form tíðkast við af-
greiðslur mála á ríkisráðsfundum enn þann dag í dag.
Venjulega fór ráðherra íslands til Danmerkur ekki sjaldnar en tvisvar á ári
til að sitja þar ríkisráðsfundi, og kom það til af því, sem áður var getið, að í
fvrsta lagi þurfti að fá samþykki konungs fyrir frumvörpum, sem stjórnin ætlaði
að leggja fyrir Alþingi, og í öðru lagi þegar leita þurfti staðfestingar á þeim
lögum, sem Alþingi hafði hverju sinni samþykkt. Ekki var boðað til ríkisráðs-
fundar í Danmörku sérstaklega, þótt ráðherra íslands kæmi til Kaupmanna-
hafnar í þeim erindum sem nú var getið, heldur mætti hann á fyrsta fundi,
sem boðað var til í ríkisráðinu, eftir að hann var kominn þangað, enda leið
sjaldan langur tími milli þess að ríkisráðsfundir væru haldnir.
Venjan var sú, að ráðherrar legðu á fundum þessum mál sín fram hver
fyrir sig í sömu röð og þeir voru skráðir við myndun þeirrar stjórnar, sem þeir
áttu sæti í. Á ráðherralistum þeirra ríkisstjórna, sem fóru með völd á tíma-
bilinu 1904-1918, var ráðherra íslands skráður á eftir hinum dönsku ráð-