Andvari - 01.01.1981, Side 149
ANDVARI
ÚR ENDURMINNINGUM SYSTUR CLEMENTIU
147
Hún fæddist í Árósum í Danmörku 25. ágúst 1875, var af góðu bergi
brotin, enda bar útlit hennar og framkoma öll því glöggt vitni. Hún var ekki
nema 15 ára gömul, þegar hún ákvað að helga sig klausturlífi, og fór þá þegar í
skóla Sankti Jósefssystra í Kaupmannahöfn. Hún var trú köllun sinni, gekk í
reglu þeirra, þegar er aldur leyfði, og var aðeins 21 árs að aldri, þegar hún
kvaddi Danmörku, hina brosmildu ættjörð sína, og hvarf hingað til Islands
árið 1896. Hér dvaldist hún síðan mestan hluta ævinnar og hvílir nú í ís-
lenzkri mold bakvið dómkirkjuna í Landakoti, þar sem hún lifði og starfaði.
Systir Clementia andaðist 5. febrúar 1933 á 57. aldursári. Þegar ég frétti
andlát hennar, var ég við nám erlendis og gat af þeim sökum ekki fylgt þessari
velgerðarkonu minni hinzta spölinn. Ég varð því að láta mér nægja að minnast
hennar í bænum mínum, og er ég þess fullviss, að hún hefur heyrt þær. Mér
var sagt, að við útför hennar hafi verið mikið fjölmenni saman komið. Allir
nemendur hennar, eldri sem yngri, vildu auðsýna henni þakklæti sitt. Og í
minningarorðum, sem eitt skólabarnið lét birta í einu af dagblöðum bæjarins,
standa þessi barnslegu og einlægu kveðjuorð:
„Vertu sæl, systir. Við felum með djúpri hryggð og innilegu þakklæti sál
þína drottni, sem sendi þig til okkar.“
Undir þessi orð tek ég heilum huga.
Systir Clementia skrifaði forkunnar fagra rithönd og hélt dagbækur mikinn
hluta ævinnar. Þær eru nú geymdar hjá systrunum í Garðabæ, sem varðveita
þær eins og helgan dóm. Ég fékk leyfi til þess að lesa þær fyrir mörgum árum
mér til mikillar gleði. Sá kafli dagbókarinnar, eða endurminninganna, sem hér
verður birtur, féll mér svo vel í geð, að ég gerði það mér til gamans að þýða
hann á íslenzku. Ég vona, að fleirum en mér þyki fróðlegt að heyra um þennan
merka þátt í sögu höfuðstaðarins, sem síðan hefur vaxið úr smáþorpi í stór-
borg. Eiga systurnar, sem hingað lögðu leið sína fyrir áttatíu og fimm árum,
ekki lítinn þátt í þeim framförum á sviði heilbrigðismála, sem síðan hafa orðið.
Dagbókin, eða öllu heldur minningakverið, sem hér um ræðir, er í litlu
broti 20,5X13,5 sm. að stærð og samtals 46 blaðsíður.
Frásögn systur Clementiu er, svo sem vænta mátti, rituð af hógværð á
látlausu, en vönduðu dönsku máli, enda átti hún mjög auðvelt að koma fyrir
sig orði bæði í ræðu og riti.
Svo sem ráða má af frásögninni, munu endurminningar þessar ritaðar kring-
um 1912 og greinilega að mestu eftir minni. Af þessum sökum hafa nokkur
ártalanna skolazt örlítið til. Hafa slíkar misfellur verið leiðréttar án þess að
þeirra sé getið sérstaklega.
Að lokum skal þess getið, að umræddar endurminningar systur Clementiu
voru fluttar í Ríkisútvarpið á föstudaginn langa, 8. apríl 1977, nokkuð stytt-
ar, ásamt fáeinum formálsorðum, og með aðstoð frú Sigurveigar Guðmunds-
dóttur í Hafnarfirði og Karmelnunnanna þar.