Andvari - 01.01.1992, Síða 26
24
GUÐMUNDUR ARNLAUGSSON
ANDVARI
5. Þáttaskil
Árið 1915 varð mikil breyting á einkahögum Sigurðar, hann kvæntist
og stofnaði heimili. Kona hans var Halldóra Ólafsdóttir. Faðir henn-
ar var séra Ólafur Finnsson prestur í Kálfholti í Holtum, en Þórunn
Ólafsdóttir móðir hennar var ættuð frá Mýrarhúsum á Seltjarnar-
nesi. Halldóra var fædd 1892 og því 14 árum yngri en Sigurður, er var
37 ára þegar þau giftust. Þessi ráðahagur varð Sigurði til mikillar
gæfu. Halldóra var mikilhæf kona, hún stóð föst og traust við hlið
honum það sem eftir var ævinnar og studdi hann með ráðum og dáð.
Sigurður fann það ofurvel sjálfur hve mikils virði hún var honum og
unni henni jafn heitt og fölskvalaust á efri árum sem í upphafi. Þeim
hjónum varð fimm barna auðið og fæddust þrjú hin elstu í Reykja-
vík: Ólafur 1915, Þórunn 1917 og Örlygur 1920, en tveir yngstu syn-
irnir á Akureyri: Guðmundur Ingvi 1922 og Steingrímur 1925.
Árið 1917 var Sigurður skipaður kennari við Kennaraskólann, og
þar með var fjárhagur hans kominn á fastan grundvöll, þótt launin
væru ekki ýkja há. Hann var vinsæll og mikils metinn kennari og
orðinn kunnur rithöfundur. Þótt ekki hefði hann skrifað þykkar
bækur, höfðu ritgerðir hans vakið talsverða athygli og litið var til
hans sem efnilegs og sjálfstæðs djúphyggjumanns.
í ársbyrjun 1921 andaðist Stefán Stefánsson skólameistari á Akur-
eyri. Norðlendingum þótti vænt um skóla sinn og höfðu talsverðan
metnað fyrir hönd hans. Mjög hafði sópað að Stefáni skólameistara
og var skarðið vandfyllt. Var nú leitað til Sigurðar um það, hvort
hann myndi vilja taka að sér skólameistarastarfið. Komu þar ýmsir
áhrifamenn við sögu, meðal annarra Jónas Jónsson frá Hriflu. Sig-
urður mun hafa verið tregur til, lét þó til leiðast að lokum, en setti
skilyrði, meðal annars það að Guðmundur G. Bárðarson yrði ráðinn
náttúrufræðikennari skólans. Guðmundur var þá einn af virtustu
náttúrufræðingum landsins. Hann var að mestu sjálfmenntaður,
hafði orðið að hætta námi í Reykjavíkurskóla sakir heilsubrests, og
hafði síðan verið bóndi í Strandasýslu en stundað vísindastörf jafn-
hliða. Fyrir þau störf var hann orðinn kunnur maður og hafði hlotið
styrki til rannsókna frá vísindastofnunum. Kom þarna þegar í ljós sú
stefna Sigurðar að afla skólanum sem allra færastra kennara í hverri
grein.