Andvari - 01.01.1992, Page 28
26
GUÐMUNDUR ARNLAUGSSON
ANDVARI
legan hátt er sýnt fram á hvílíkt áfall afnám Hólaskóla var fyrir norðlenska
pilta, sem hugðu á skólanám. Það sem til þessa hafði með talsverðum fórn-
um vel mátt takast hjá sonum miðlungs bænda varð nú þorra manna frá-
gangssök. Aratugum saman afvenjast norðlenskir bændur því að mestu að
kljúfa kostnað þann, sem því fylgdi að senda syni sína í latínuskóla.11
Ekki var að undra þótt Norðlendingar sæktu það fast að fá aftur
skóla norður. Sú barátta bar árangur nokkru eftir að íslendingar
fengu stjórnarskrá. Skólanum var þá valinn staður á hinu forna höfð-
ingjasetri Möðruvöllum í Hörgárdal. Þar var hann settur í fyrsta
sinni haustið 1880 og höfðu Norðlendingar þá verið án skóla í rúma
þrjá aldarfjórðunga. Fyrsti skólastjóri Möðruvallaskóla var Jón
Andrésson Hjaltalín er verið hafði bókavörður í Edinborg. Jón hafði
búið hátt á annan áratug í Englandi og Skotlandi. Þessi dvöl hafði
mótað hann nokkuð og áhrifa hennar gætti á hinn nýja skóla, þannig
að skólabragur þar varð frá upphafi talsvert ólíkur því sem var í
Reykjavíkurskóla, en að sjálfsögðu skipti þar líka nokkru máli að
skólinn var í sveit. Persónuleg samskipti kennara og nemenda urðu
meiri og frjálsmannlegri en syðra, minni áhersla á einkunnum og
refsingum. Einnig var kennsla í sumum greinum nýtískulegri, meðal
annars reyndi Jón að venja nemendur við að tala aðeins ensku í
enskutímunum.
Ekki var til Möðruvallaskóla af neinu ríkidæmi stofnað. Aðstæður
voru þar frumstæðar og frumbýlingsörðugleikarnir margir. Árferði
fór versnandi og upp komu erfið mál innan skólans, svo sem matar-
deilan fræga. Varð þetta allt til þess að nemendum fækkaði og fram
komu raddir um að leggja skólann niður. Gekk þetta svo langt að á
Alþingi var flutt tillaga árið 1889 um að leggja skólann niður, en
koma upp gagnfræðakennslu í Reykjavík í staðinn. Sú tillaga var
felld með minnsta atkvæðamun. Enn kom fram stjórnarfrumvarp um
sama efni árið 1895, en það náði heldur ekki fram að ganga. Jafn-
framt komu fram hugmyndir um að flytja skólann til Akureyrar.
Meðan á þessu stóð hafði skólinn þó rétt allvel við, nemendum hafði
fjölgað aftur og skólinn vaxið í áliti.
Árið 1902 brann skólahúsið á Möðruvöllum. Eftir það var nærri
sjálfgert að flytja skólann til Akureyrar, sem þá var bær í örum vexti,
en átti sér enga aðstöðu til framhaldsfræðslu unglinga. Skólinn var
líka á flestan hátt betur settur á Akureyri en Möðruvöllum.