Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 68
66
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
opnað bók í rúm fimtíu ár. Ættum við ekki heldur að bréfa hvað verða
skuli af þessum sautján rolluskjátum sem ég tel mér.“
Þetta er nokkuð harðhnjóskulegt uppgjör manns sem séð hefur hvern
guðinn af öðrum bregðast og á að lokum ekkert eftir nema umhyggjuna
fyrir skynlausum skepnum, hinu umkomulausa lífi. Og það er kannski ekki
svo lítilvægt. En hverjir voru þeir „guðir“ sem Halldór Laxness aðhylltist í
rauninni á sinni höfundarævi? Vandkvæðin við að greina það rétt stafa að
nokkru af því að Halldór, eins og allir miklir rithöfundar, hefur verið iðinn
við að skrá sögu sína sjálfur jafnóðum, eins og hann vill láta túlka hana, og
fræðimenn síðan þrætt þau spor. Þar kemur brátt upp sú setning að hann
hafi skrifað sig frá kaþólsku með Vefaranum og tekið trú á sósíalisma og
kommúnisma (án þess að verða nokkru sinni formlega kommúnisti, vildi
þannig aldrei ganga í Kommúnistaflokk Islands). En rammur stalínisti var
hann, um það ber Gerska ævintýrið skýrastan vott, og tók málstað Sovét-
ríkjanna í heimsmálum fram á tíma kalda stríðsins, hvort sem honum eða
öðrum líkar betur eða verr nú. Aður en hið endanlega uppgjör kom í
Skáldatíma hafði breyting orðið á skáldskap hans. Efahyggja og vantraust
á öllum kenningum, slíkt sem Harðhnútur orðar svo afdráttarlaust, varð
kennimark skáldsins.
Merkimiðar á mikla listamenn eru alltaf villandi og þrætur um það hvort
menn hafi aðhyllst þetta eða hitt viðhorf í þjóðfélagsmálum verða iðulega
fánýtar og sýna einkum frumstætt viðhorf lesandans. Eftir því sem skáld-
skapur er ríkari þáttur í lífi eins manns, eftir því er fráleitara að ætla að
marka honum slíkan bás. Sannir listamenn láta ekki að stjórn, hollusta
þeirra við kröfur hinnar sífrjóu, ófyrirsjáanlegu sköpunargáfu hindrar það.
En allar þjóðfélagshræringar speglast með sínum hætti í verkum lista-
mannsins. Þær gera það engu síður í verkum sem eiga að gerast á löngu
horfnum tíma. Islandsklukkan og Gerpla eru vitaskuld mögnuð dæmi um
slíkt.
Af mörgum viðtölum við Halldór Laxness er mér sérlega minnisstætt viðtal
sem Erlingur Davíðsson átti við hann og birtist í Degi á Akureyri 23. ágúst
1967. I lok samtalsins spyr Erlingur: „Hverjir eru þeir á íslandi sem ekki
eru skáld?
- Þetta er dálítið slungin spurning og vandi að svara henni, segir skáldið
og verða svipbreytingar margar. - Ég tel ekki að skáld séu þeir einir sem
rita bækur eða yrkja ljóð, heldur þeir sem hafa ljóðræna og skáldlega sýn á
hlutunum í sínu lífi og geta skilið þá menn sem leggja það fyrir sig að túlka
heiminn á skáldlegan hátt. Ég spurði einu sinni geðveikralækni á þessa
leið: Eru ekki allir miðlar brjálaðir? Þá segir hann: Jú, og ekki aðeins eru
allir miðlar brjálaðir, heldur líka allir þeir menn sem hafa tilhneigingu