Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 89
ANDVARI
„ALT ER LYGI NEMA ÁSTIN"
87
ísland í fyrsta sinn gefur hann Diljá þá skýringu á brottför sinni að hann
fari til þess að geta sinnt móður sinni;
Loks komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hlyti að fara. Eða hver ætti annars að lesa
upphátt fyrir mömmu úr guðspekilegum delluritum eða enskum half a crown skáld-
sögum, rituðum handa „góðfúsum lesendum“ á hælaskökkum stígvélum, með úfið
hár, vanhirtar tennur og listamannaslaufu; og hver á að leiða frúna um söfnin í Fir-
enze og sýna henni snildarverkin eftir Kraðak og Michaelsen í Galeria Pitti, hver ef
ekki ég? Er sonurinn kanski ekki í heiminn borinn til að stjana undir móður sinni?
(Bls. 13)
Steinn Elliði er fljótur að gleyma áformum sínum enda hefur hann senni-
lega aldrei ætlað að sinna móður sinni. Jófríður verður miður sín og hún
skrifar í bréfi til Diljár:
Fyrstu dagana í Brighton var Steinn mér einsog nærgætinn og góður sonur: á morgn-
ana fylgdi hann mér á gaungu frammeð sjónum, eftir Kingsroad og Marine Parade,
og oft fórum við saman í Regent Palais de Dance síðari hluta dags, og hann var enn
góði dreingurinn, kurteis og inndæll, og steig þar oft með mér nokkur dansspor. (Bls.
65)
Sonurinn, Steinn Elliði, tekur ekki að sér að svara ástarþrá móður sinnar.
Móðurhlutverkið fullnægir ekki þrám konunnar frekar en hlutverk eig-
inkonunnar. Jófríður telur að hlutverk ástkonunnar sé þess virði að leika
það um stund en áttar sig á að . .elskuginn gefur henni ekki nema eina
gjöf, þá að taka frá henni alt. Af manninum sínum krefur hún án þess að
gefa; elskhuganum gefur hún án þess að krefja.“ (Bls. 69) Hún býr við ást-
leysi og frið finnur hún aðeins í faðmi dauðans.
Jófríður er ekki eina konan í verkum Halldórs sem býr við ástleysi
hjónabandsins. Á eftir henni fylgja margar konur. Tilfinningakuldi hjóna-
bandsins fylgir öllum stéttum. Hann er ekki bundinn við borgarastétt
Reykjavíkur í upphafi 20. aldarinnar. Hungruð eiginkonan býr á íslenskum
heiðakotum ekki síður en í miðborg Reykjavíkur. Konan þarf að leita full-
komnunar útfyrir hefðbundið kynhlutverk sitt. í augum Jófríðar er heimil-
ið ekki höll draumalandsins.
Konan fær ekki fullnægt þörf sinni fyrir að vera elskuð. Hún finnur ekki
kærleikann í brjósti mannsins. Manninn skortir hæfileikann til þess að
elska konuna á platónska vísu. Þess vegna býr konan tilfinningalega van-
rækt og ófullnægð í sambúð sinni við karlmanninn. Ekki skiptir máli hvort
um er að ræða sambúð karls og konu í hjónabandi eða sambúð karla og
kvenna í smærri eða stærri samfélögum. Konan elskar lífið og ástin eða
kærleikurinn er hennar æðsta takmark. Karlmaðurinn leitar að sjálfum sér
í valdi og drottnunargirnd. Hann vill svæla allt undir sig. Konan kann ekki