Andvari - 01.01.1992, Page 111
ANDVARI
SAMRÆÐA UM LIST OG VÍSINDI
109
grein hafi sinn sérstaka hugsunarhátt: lögfræðingur, heimspekingur og líf-
fræðingur sitja saman í nefnd, og hver þeirra lítur sínum augum á við-
fangsefnin sem er stundum freistandi að rekja til fræðigreinanna þriggja.
Eins og við getum einblínt á sérkenni hugsunarinnar má líta á fólk fyrst og
fremst sem einstaklinga. En fyrir langt að komna erum við öll eins, í Súdan
og Grímsnesinu.
Sú er ein árátta heimspekings að nálgast viðfangsefni sín eins og hann
væri langt að kominn, framandi gestur. Köllun hans er að gera jafnvel
hversdagslegustu efni framandleg og þar með umhugsunarverð. Og þegar
ég nálgast hugsunina úr hæfilegum fjarska virðist mér hún öll eins. Það er
sama hvort slegin er nóta á hljóðfæri eða teiknað strik á blað og spurt
hvernig haldið skuli áfram, hvort byrjað er „köllum 2, 3, 5, 7 . . . frumtöl-
ur“ eða „Bölvuð sólin brennir allt“ og spurt hvernig haldið skuli áfram.
Aframhald er orð í íslenzku. Þótt ég ali með mér heimspekilegar efasemdir
um eðlishugtakið finnst mér freistandi að segja: eðli allrar hugsunar er
áframhald. Framvinda. Stundum staldrar maður við í miðju kvæði eða
miðju lagi og segir við sjálfan sig: „Hvernig er hægt að halda áfram eftir
þetta?“ Og viti menn: almennileg skáld eða tónskáld geta haldið áfram
jafnvel þótt þau séu komin á tindinn í miðju kafi. Það gegnir sama máli um
snjallar hugmyndir eða röksemdafærslur í vísindum.
II
Sigurður.
Því er haldið fram að listir og vísindi séu tvær greinar á sama meiði: skap-
andi iðja - tvenns konar kraftbirting mannshugarins. En samt er að minni
hyggju grundvallarmunur á: vísindin leitast við að finna eitthvað sem þegar
er fyrir hendi, uppgötva lögmál náttúrunnar í öllum sínum myndum. Þess
vegna búa vísindin við aðhald sannleikans - í vísindum er rétt og rangt al-
gilt. í stærðfræði er sýnt fram á sannleiksgildið með aðferðum sönnunar
eða afsönnunar, en í náttúruvísindum með tilraunum. Stærðfræðingar
segja, að á Andrómedu sé nákvæmlega eins stærðfræði og hér á jörð, þann-
ig að stærðfræðin er ekki einasta rökbundið kerfi, sem búið hefur verið til
af mönnum, heldur er hún „algilt mynztur í tilverunni,“ ef svo má að orði
komast. Eins er það með náttúruvísindin: þyngdaraflið verkar jafnt á fróða
sem fáfróða, dautt efni og lifandi, og það er óleyst verkefni eðlisfræðinnar
að skilja það til hlítar. Lífið hefur kviknað á jörðinni með einhverjum hætti
og síðan þróazt, - ekki sízt fyrir daga Darwins (vegna þess hve margir þeir
dagar voru) - og það er verkefni líffræði og jarðfræði að skilgreina það allt
saman og skýra. Þessi ferli eru semsagt að verki óháð því hvaða hugmyndir
menn kunna að gera sér um þau, en af öllum skýringum og skilgreiningum