Andvari - 01.01.1992, Qupperneq 114
112
ÞORSTEINN GYLFASON OG SIGURÐUR STEINÞÓRSSON
ANDVARI
leikur. En við skulum reyna að standast þessa freistingu og byrja þá kann-
ski á að minnast þess að það er ekki öll þekking eða vitneskja jafngóð frá
vísindalegu sjónarmiði. Ekki einber fróðleikur til dæmis, af hvaða tæi sem
vera skal. Símaskrár heimsins hafa ekkert gildi frá vísindalegu sjónarmiði
að ég bezt veit, og samt eru þær fullar af sannindum um fólkið í heiminum
og hagi þess.
Svo að vísindin hirða ekki um „allan sannleikann“. Pau hirða ekki um
„ekkert nema sannleikann“ heldur, því að þau eru sjálf barmafull af ein-
földunum og ágizkunum, tilgátum og kenningum sem enginn veit hvort
heldur eru réttar eða rangar. Og mun aldrei vita.
Nú er ég á höttunum eftir þeirri hugsun að það sem máli skipti um vís-
indin sé ekki sannleikur sem þau leiða í ljós, enda sé sannleikurinn sem
slíkur alls ekki eftirsóknarverður, heldur sé keppikefli þeirra fyrst og
fremst skilningur. Við viljum skilja. Við viljum fá skýringar á hlutunum:
geimgeislum, líkamsstarfseminni, jarðsögunni. En ef ég fæ að segja að vís-
indin séu leit að skilningi þá hættir það að blasa við að þau séu eðlisólík
margri list að minnsta kosti. Sum list að minnsta kosti er leit að skilningi.
Til dæmis er ekki nokkur vafi að við höfum mannskilning úr bókmenntum
fyrst og fremst. Við höfum hann ekki úr sálarfræði og mannfræði.
IV
Sigurður:
„Þekktu sjálfan þig“ segir máltæki, sem sýnir að á íslenzku getur sögnin að
þekkja jafnframt þýtt að skilja. Pess vegna er leit að þekkingu í mínum
huga ekki síður leit að skilningi, og við öldungis sammála í því atriði. Síma-
skráin hefur náttúrlega ekkert með náttúruvísindi að gera, enda þótt það
kynnu að þykja frambærileg hugvísindi að gera tíðnikönnun á nöfnum í
þeirri skrá, eða eitthvað þ.u.l. En við erum semsagt sammála um það, þeg-
ar öll orð hafa verið nægilega skilgreind, að vísindin búa við aðhald raun-
veruleikans - hlutirnir eru með einhverjum hætti, og lögmál náttúrunnar
sömuleiðis, hvaða hugmyndir sem menn kunna að gera sér um þau - en
listirnar ekki. Par getur það meira að segja þótt sérlega listrænt að víkja frá
raunveruleikanum, mála bláan hest eða konu með nefið á gagnauganu.
Við getum líka verið sammála um það, að skáldsaga auki okkur skilning á
manninum ekki síður en sameindakenningin um lofttegundir eykur skiln-
ing á hegðun lofttegunda. En þó er munur á: með Sjálfstæðu fólki Kiljans
eða Fávita Dostojevskís bætist ekkert við skilning okkar á manninum urn-
fram það sem þegar var komið fram í Dæmisögum Esóps eða Biblíunni eða
Njálu. Hér ber því aftur að sama brunni: væri markmið listanna hið sama
og vísindanna - skilningur - þá væri það mál afgreitt fyrir löngu og lista-