Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 142
140
EYJÓLFUR KOLBEINS
ANDVARI
Hann, sem stundum er nefndur „fyrsti húmanistinn,“ leggur málsvara ástar
og miskunnar þau orð í munn að „það ríki“ sé „ekkert ríki sem“ sé „einum
háð,“ og að einvaldur harðstjóri „væri farsæll kóngur yfir eyðimörk.“33 í
leikriti Evrípídesar, „Nauðleitir,“ segist Þeseifur konungur í Aþenu ekki
fara einn með völd, heldur sé borgin frjáls, alþýðan skiptist á að stjórna, og
auður ráði ekki mestu, heldur haldi fátækir hlut sínum.34 Vænta má að
Evrípídesi hafi þótt þetta rétt og lofsvert, en hann hefir einnig séð bresti
lýðræðisins og þær hættur sem því stafa af valdafýsn ókvalráðra lýðskrum-
ara: ræðumanna sem eru orðhvatir og komast langt á frekju tómri . . . og
reiða sig á „skrum og skvaldur heimskulegt“3:’ og leiða alþýðuna í ógöngur.
Aiskhýlos og Sófókles settu traust sitt á órannsakanlega og réttláta guði
og rengdu ekki goðsagnir feðranna.36 Ekki er að efa að Evrípídes hafi verið
trúmaður, en lesanda hans koma þó helst í hug orð Tertúllíanusar: „Credo
quia absurdum“, „Ég trúi af því að það er fráleitt.“ Hann tekur undir með
heimspekingnum Xenófanesi37 og leggur Heraklesi í munn að hann trúi
ekki því sem sagt er um fjöllyndi guða í ástum, né að þeir leggi hver annan
í fjötra né þrælki hver annan, slíkt sé „marklaust skáldageip,"38 guð þurfi
einskis með ef hann sé í raun og veru guð. Og Heköbu verður að orði: „Þú
sem í hendi heldur vorri jörð, sem þó / er hástóll þinn, hver sem þú ert -
hver skilur það? - / hvort Seifur, nauðsyn náttúru eða hugsun manns, / ég
kalla á þig.“39
Sófókles virðist hafa talið að ætterni skipti mestu um hegðun manna og
örlög,40 en Evrípídes vekur máls á þeirri nýstárlegu hugmynd að uppeldi
kunni að ráða mestu.41
Augljóst er að á 5. öld hefir orðið bylting hugmynda og lífsviðhorfs, í
stað trúar er komin óvissa, í stað sannfæringar efi og rökvísi. Af óvissunni
spruttu rökræður um siðræn meginmál. Sókrates kenndi að menn breyttu
rangt sökum vanþekkingar og myndu breyta rétt ef þeir vissu hið rétta.
Evrípídes svarar með orðum Faidru: „Við sjáum vel og vitum hvað er gott
og rétt / en gerum annað.“42 Leikrit hans spanna eins og hugur Faidru
öfgafullar ástríður og kalda rökhyggju og eru 20. aldar mönnum ólyginn og
ómjúklátur samtíðarspegill. Nú loks er hann öllum læsum íslendingum að-
gengilegur, og veltur að vísu mest á augum skoðandans hvaða mynd birtist
honum.
VI
En hvernig hefir þá tekist til um íslenskun leikritanna?
Fyrst er að geta um hlut útgefandans, Máls og menningar. Þetta er snot-