Andvari - 01.01.1992, Síða 178
176
GUNNAR JÓHANNES ÁRNASON
ANDVARI
lætis og sannleika ofar lögmálum náttúrunnar. Stoðunum er kippt undan
mannhyggju og þeirri heimssýn sem hefur manninn á stall.
Kjarninn í því sem Páll og Grímur deila um í Sœlir eru einfaldir er hvort
til sé sá mannsandi sem standi undir nafni, þ.e.a.s. tilheyri ekki efninu
heldur sé andi sem lúti engu nema sjálfum sér. Báðir virðast gera ráð fyrir
því að sjálfstæð og sjálfráð tilvera andans sé frumskilyrði fyrir að hægt sé
að tala um algilt réttlæti, hvað þá líf eftir þetta líf. Ef ekki er hægt að gera
greinarmun á efni og anda, þá er siðferði ekkert annað en skollaleikur.
Vandinn er sá að ekki virðist hægt að koma heim og saman, annars veg-
ar því að við höfum samvisku, hugsum skynsamlega og veljum rétt, og hins
vegar því að heimurinn gengur ófrávíkjanlega fyrir lögmálum náttúrunnar
þar sem allt er jafngilt. Hinn sjálfráði maður, sem er tilbúinn að fórna sér
fyrir það sem hann trúir á, virðist ekki eiga heima í þessari veröld, en hann
tilheyrir henni samt. Þetta er hinn heimspekilegi og trúarlegi vandi, en
hinn mannlegi vandi, sem snertir daglegt líf, felst í þeirri vansæld, kvíða og
efasemdum sem lífssýn tómhyggjunnar ýtir undir. Efasemdirnar naga Grím
innan frá þangað til hann örvilnast og missir vitið. Hvaða lækning er til við
slíkri meinsemd? Á henni er ekki hægt að ráða bót með því að beita fimum
rökum og heimspekilegu tali. Það nægir ekki heldur að láta sem ekkert sé,
líta bara á björtu hliðarnar á tilverunni og njóta lífsins á meðan tækifæri
gefst. Heimurinn er ekkert endilega betri þótt við brosum framan í hann.
Örvænting gagnvart illsku og miskunnarleysi heimsins er að sjálfsögðu
ekki ný af nálinni og alls ekki bundin við okkar tímaskeið. í byrjun aldar-
innar kom út athyglisverð bók eftir ameríska sálfræðinginn og heimspek-
inginn William James, sem heitir á ensku Varieties of Religious Experience,
eða Afbrigði trúarreynslu. Þar ræðir hann þá sálarþraut, James kallar það
hugsýki, sem hrjáir þá sem finnst að heimsins böl, grimmd, óréttlæti og
ekki síst dauðinn sjálfur, sé óræk staðfesting þess að allt sé unnið fyrir gíg,
mannleg tilvera tilgangslaus þrautarganga, hvernig sem á hana er litið. Til
að lýsa þessu hugarástandi vitnar hann meðal annars í rússneska rithöf-
undinn Tolstoj sem átti í hræðilegri sálarkreppu í kringum fimmtugsaldur-
inn og lýsir þeim hremmingum af mikilli andagift í Játningum sínum. Mig
langar til að grípa niður í lýsingu Tolstojs til að gefa okkur innsýn inn í
hugarástand sem skapast þegar líf einstaklings glatar allri merkingu sinni
og ekkert virðist vera þess virði að lifa fyrir.
Tolstoj lýsir því hvernig þær stundir komu þegar allt stöðvaðist, eins og
hann vissi ekki lengur hvernig hann ætti að lifa, hvernig hann ætti að halda
áfram. Spurningarnar af hverju, og hvað svo, tóku að ásækja hann. Eitt-
hvað hafði gefið eftir og hann missti tökin. Allt átti þetta sér stað, segir
hann, um það leyti sem allar ytri kringumstæður hans voru þannig að hann
hefði átt að vera fullkomlega hamingjusamur. Hann var í ástsælu