Andvari - 01.01.1995, Blaðsíða 155
ANDVARI
RÁN EÐA RÆKTUN
153
sitt hafi einkum verið í því fólgið að bæta helstu spellvirki sem unnin hefðu
verið á staðnum. Aðalveginum hefði verið breytt, nýir troðningar teknir af
og reynt að græða upp vegarstæðin. Þá hefðu bæði efri og neðri vellirnir
verið girtir og ýmislegt fleira lagfært. Telur Guðmundur þörf miklu meiri
og víðtækari friðunaraðgerða, ef vel ætti að vera. Skógarleifarnar í Þing-
vallahrauni séu í bráðri hættu, en allir fjórtán bæir í Þingvallasveit sæki
þangað skóg til eldiviðar.
En í stað aukinnar friðunar var starf umsjónarmanns lagt niður í sparn-
aðarskyni næsta vor. Taldi Guðmundur þá ákvörðun hafa verið tekna
vegna þrýstings frá bændum í sveitinni, sem kusu að hagnýta Þingvallar-
svæðið til beitar og skógarhöggs, líkt og verið hafði.
Boðskapur Guðmundar um þjóðgarð á Þingvöllum virtist því hafa fallið í
grýttan jarðveg. En 15 árum eftir að tillagan var fyrst fram borin, varð hún
að veruleika. Þá var gamall samstarfsmaður Guðmundar úr ungmennafé-
lagshreyfingunni, Jónas Jónsson frá Hriflu, orðinn einn valdamesti maður
landsins. Frá því greinir síðar.
4
Á þriðja, fjórða og fimmta áratug þessarar aldar var Guðmundur Dav-
íðsson óþreytandi að brýna náttúriivernd fyrir löndum sínum. Kjarninn í
boðskap hans var sá, að eigi ekki illa að fara verði maðurinn að leggjast á
sveif með náttúrunni og hverfa frá rányrkju, en vinna að ræktun á sem
flestum sviðum. í fjölda greina og ritgerða lýsti hann því með sterkum orð-
um og áhrifamiklum frásögnum, hve mjög hefði verið níðst á landinu frá
landnámstíð og fram til þessa dags. Landsmenn eigi sjálfir mesta sök á því
að ættjörðin sé nú „með brjóstin visin og fölar kinnar“.
Greinar Guðmundar um þessi efni birtust í ýmsum blöðum og tíma-
ritum, Alþýðublaðinu, Tímanum, Ægi, Rétti og Tímariti samvinnufélag-
anna.
Efni greina þessara var margvíslegt. Þar var fjallað um friðun Þingvalla
og um þjóðgarða (margar greinar), skógeyðingu og skógrækt, fugladráp
(hernaðinn gegn rjúpunni, gereyðingu fálkans), rányrkjuna á hafinu, bölv-
un botnvörpunnar, útrýmingu hvala, nauðsyn stórfelldrar fiskiræktar. Er þá
einungis hið helsta talið.
Guðmundi var jafnan mikið niðri fyrir, og stundum gerðist hann næsta
stóryrtur. Eins og við mátti búast, egndi það ýmsa upp gegn honum og
boðskap hans. Frá bændum og fleirum, svo sem fuglaveiðimönnum, mun
hann oft hafa fengið óþvegið orð í eyra; ekki væri takandi mark á öfgum
hans og sleggjudómum.