Andvari - 01.01.1995, Blaðsíða 35
ANDVARI
ÞORSTEINN Ö. STEPHENSEN
33
skoða, hvernig leikferill hans þessi ár endurspeglast í umsögnum
leikdómara. Tekið skal fram, að hvergi nærri er vitnað til allra, sem
skrifuðu um sýningarnar, heldur aðeins valið úr því, sem eitthvað
sýnist vera á að græða. íslensk leiklistargagnrýni hefur alla tíð verið
harla misjöfn að gæðum og margt verið skrifað undir merkjum henn-
ar, sem lítil ástæða er til að halda á lofti.
Tveir dómarar og einn hefðarklerkur - Wilkins dómari í Elsku
Rut, Róbert Belford í Marmara og séra Absalon Beyer í Önnu Pét-
ursdóttur - bættust í persónusafn Þorsteins veturinn 1950-51. Merk-
ast þessara hlutverka var tvímælalaust Róbert Belford. Marmari er
áköf prédikun gegn þeirri óhóflegu refsigleði, sem höfundur taldi
ríkja í réttarfari margra vestrænna ríkja og hann andæfði raunar í
fleiri verkum sínum, eins og Oss morðingjum og skáldsögunni um
Ragnar Finnsson. Aðalpersóna leiksins, Róbert Belford dómari, rís
gegn því hefðbundna gildismati, sem staða hans sjálfs byggist á, og
mótmælir þeirri tvöfeldni, sem honum þykir einkenna viðhorf sam-
félagsins til glæpamanna. Hugrekki sitt og sannleiksást geldur hann
dýru verði og endar að lokum á geðveikrahæli, þar sem hann sviptir
sig lífi. í hlutverki Belfords vann Þorsteinn frægan sigur. Gagnrýn-
andi Þjóðviljans, Ásgeir Hjartarson, dáist að því, hversu vel honum
tekst að blása lífsanda í tilsvör persónunnar; hann beri „höfuð og
herðar yfir umhverfi sitt, höfðinglegur maður og gáfulegur, en mann-
úð og mildi lýsa af svip hans og ásjónu; mál sitt flytur hann af inni-
leik og þrótti og þó með því sérstæða látleysi sem Þorsteini er lag-
ið.“28 Agnari Bogasyni, ritstjóra Mánudagsblaðsins, finnst sem
Gunnar Hansen leikstjóri hafi leyst hæfileika Þorsteins úr læðingi,
bæði í þessari sýningu og Elsku Ruf, hvergi beri „nú á þunga þeim,
sem áður þótti gæta í leik Þorsteins, en meðferð hans er öll létt,
ákveðin og hreyfingar virðulegar án þess þær séu þvingaðar. Radd-
brigði eru ágæt og öryggi hans í framkomu mun áreiðanlega styrkja
meðleikendur hans.“29
Það er vert að staldra aðeins við þetta síðasttalda atriði í umsögn
Agnars, hið góða jafnvægi á milli Þorsteins og annarra leikenda.
Hverjum sem les Marmara má vera ljóst, að hlutverk Belfords gefur
snjöllum stórleikara mörg tækifæri til að „stela senunni“ og varpa
skugga á mótleikara sína. í slíka freistni fellur Þorsteinn sem sagt
ekki, að mati leikdómarans, og reyndar hef ég í samtímaheimildum
aðeins einu sinni séð ýjað að einhverju slíku og þá nánast í hálfkær-
3 Andvari ’95