Andvari - 01.01.1995, Blaðsíða 26
24
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
Fjölskyldumaður og leikari
Á þessum tíma var framtíð Þorsteins harla óráðin. Hann hafði byrj-
að að lesa læknisfræði í Háskólanum að loknu stúdentsprófi 1925, en
fljótlega hasast upp á því. Hann var nú orðinn fjölskyldumaður, því
að 21. nóvember 1930 kvæntist hann Dórótheu, dóttur hjónanna
Guðmundar Breiðfjörðs blikksmiðs og Guðrúnar Bjarnadóttur frá
Hörgsdal á Síðu. Eignuðust þau fyrsta barn sitt, Guðrúnu leikkonu,
sem er gift Hafsteini Austmann listmálara, árið 1931. Settust ungu
hjónin að á efri hæðinni í húsi tengdaforeldra Þorsteins, á Laufásvegi
4, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Börnin komu eitt af öðru næstu
árin: Ingibjörg talkennari, fædd 1936, gift Siglaugi Brynleifssyni rit-
höfundi, Stefán, hljóðfæraleikari, fæddur 1939, kvæntur Arnfríði
Ingvarsdóttur, Kristján Þorvaldur, hljóðfæraleikari, fæddur 1940,
kvæntur Ragnheiði Heiðreksdóttur, og Helga, leikkona, fædd 1944.
Allt hefur þetta fólk eignast börn og eru afkomendur þeirra Þor-
steins og Dórótheu nú 27 talsins, að börnum þeirra meðtöldum.
Það var gæfa Þorsteins, að bæði kona hans og nánasta fjölskylda,
ekki síst Guðrún tengdamóðir hans, höfðu fullan skilning á því hvert
hugur hans stefndi. Að sjálfsögðu tjáði hvorki honum né öðrum á
þessum tíma að hugsa til þess að hafa framfæri af leiklist; íslenskt at-
vinnuleikhús var ekki annað en fjarlægur draumur sem sterk öfl
gerðu sitt besta til að kæfa í fæðingu - kannski ekki ósvipað því sem
gerist um tónlistarhúsið nú. Efnin leyfðu ekki heldur langt leiklistar-
nám erlendis. Þó tókst Þorsteini að komast til Kaupmannahafnar,
þar sem hann dvaldi veturinn 1933-34 við nám í skóla Konunglega
leikhússins. Hygg ég, að kona hans, sem á þessum árum starfaði
lengstum utan heimilis, hafi ekki átt minnstan þátt í því, að af því gat
orðið. Dró Þorsteinn aldrei neina dul á, að Kaupmannahafnardvölin
hefði orðið sér lærdómsrík; hann orðaði það einhvern tímann svo,
þegar ég var að spyrja hann um þetta, að þar hefði hann í fyrsta
skipti kynnst leikhúsi - með áherslu sem gat ekki misskilist. Þá var
ekki talin goðgá, eins og nú er, að leiklistarnemar kæmu fram í opin-
berum leiksýningum og legðu lag sitt við alvöruleikara. Var Þor-
steinn þannig nýttur til einhverra smærri verkefna í sýningum leik-
hússins, m. a. Skálholti Guðmundar Kambans, sem var einmitt sýnt
undir stjórn höfundar veturinn sem hann dvaldi ytra. Ekki tókust þó