Andvari - 01.01.1995, Blaðsíða 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
atvinnuleit og sæki þangað sem auðveldara er að komast af. Ekki skal slíku
fólki álasað, en flest erum við svo mjög tengd landi okkar og þjóð að við
viljum búa hér, leitum hingað aftur þótt við hvörflum til útlanda. En á hinn
bóginn gerum við kröfu um kjör sem jafnist á við þau bestu annars staðar.
Er þetta samrýmanlegt? Getum við ekki staðið fyrr en varir frammi fyrir
því að kröfur okkar til svokallaðara lífsþæginda og neyslufrekja rekist á
tryggð okkar við land og þjóð? Evrópusambandið kveður á um óhefta för
fjármagns og vinnuafls milli landa. Þar er ekki gefinn gaumur að því að
fólk kunni að bera í brjósti þá tryggð til ættlands síns að það vilji vera þar
þótt því sé sagt að grasið sé grænna annars staðar.
Breskur prófessor í upplýsingatækni við London School of Economics, Ian
Angell að nafni, birti nýlega grein í LSE Magazine og birtist útdráttur úr
henni í Morgunblaðinu 4. ágúst 1995. Þessi maður heldur því fram að „upp-
lýsingabyltingin“ sé að ganga af þjóðríkinu dauðu. - Angell fjallar um
„hugverkamenn“, það er menn sem búi yfir sérstakri þekkingu og tækni-
kunnáttu sem nýtist hvar sem er. Þessir menn eru sjálfstæðir og hreyfanleg-
ir og þeir ýta til hliðar „handverkamönnum“ sem stunda einföld þjónustu-
störf eða frumvinnslu, eru bundnir heimahögunum og háðir ríkinu. Fyrr-
nefndu starfsmennirnir eru eftirsóknarverðir fyrir „hnattræn“ stórfyrirtæki
og þjóðríkin komist ekki hjá því, vilji þau tryggja efnahagslega velmegun,
að fylgja á eftir. Þau verði í raun að breyta sér í eins konar fyrirtæki.
Grein Angells endar á þessa leið, skv. þýðingu Morgunblaðsins: „Um
leið og þjóðríkin breytast í fyrirtækisríki í hinni nýju heimsmynd, verður
hlutverk hvers fyrirtækisríkis að framleiða rétta fólkið, með réttu þekking-
una og hugvitið, sem hráefni fyrir hnattrænu fyrirtækin sem hafa hagnast á
upplýsingaöldinni; að þjónusta þessi fyrirtæki og að sjá þeim fyrir skil-
virkum samgöngum og fjarskiptum, sem frjálsustum markaði og öruggu,
stöðugu og þægilegu umhverfi. Ef ríkið getur ekki framleitt nógu góða
„mannvöru“ eða nógu mikið af henni, verður það að kaupa hana frá út-
löndum. Ríki munu ekki líta á menntun sem rétt sérhvers borgara heldur
sem fjárfestingu, sem þau vænta arðs af; þau verða að fjárfesta í velgengni
en ekki hnignun.
Ef ríkið getur sannfært hina eftirsóttu yfirstétt hugverkamanna og inn-
lendra frumkvöðlafyrirtækja um að það sé þess virði að vera áfram í land-
inu, byrjar lukkuhjólið að snúast. Þá munu hnattrænir fjárfestar, sem færa
sig frá landi til lands, og fjármagn þeirra jafnframt dragast að landinu. Ef
ríkið hins vegar heldur áfram að leggja áherslu á heildarhyggju og lýð-
skrum, undir merkjum hins úrelta slagorðs „valdið til fjöldans“, mun yfir-
stétt frumkvöðla og hugverkamanna hverfa til arðbærari og vinsamlegri
staða. Þannig verður landið til lengri tíma svipt efnahagslegum mætti; það