Andvari - 01.01.1995, Blaðsíða 38
36
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
Grímssyni og Agnari Bogasyni.34 Telur hinn fyrrnefndi, að hann
hefði aldrei átt að koma nærri hlutverkinu, sem sé frá hendi höf-
undar bráðfyndið, svo fjarri sé það eðli hans og getu. Hann skorti
ekki aðeins nauðsynlegan léttleika og hermennskubrag, heldur einn-
ig réttan líkamsvöxt. Segir Sigurður það vekja furðu leikhúsgesta „er
þessi hraustlegi og pattaralegi hermaður upplýsir það, að hann komi
beint úr þýskum fangabúðum, sem hann hafi dvalið í um þriggja ára
skeið. Ekkert hótel gæti fengið betri meðmæli!“ Agnar Bogason læt-
ur þetta tækifæri til kvikindisskapar ekki ganga sér úr greipum og
skrifar m. a.: „Þegar William kemur inn á sviðið í 1. þætti hrökkva
áhorfendur í kút. William, nýkominn úr fangabúðum, bústinn og sæl-
legur, fullur af uppgerðarkátínu. — Látbragðið þvingað, fyndnu setn-
ingarnar fara undantekningalítið fyrir ofan garð og neðan sökum
þess m. a. að áhorfendurnir eru of uppteknir við það að undrast
hreyfingarnar - stympingar stirðra lima.“ Hjá Ásgeiri Hjartarsyni
kveður hins vegar við annan tón; hann er að vísu fáorður, en það
litla sem hann segir er ósköp vinsamlegt.35
Á það er rétt að benda hér, að beinar aðfinnslur um leik Þorsteins
eru afar sjaldséðar í dómum Ásgeirs; hann fær aldrei yfir sig jafn-
skorinorða áfellisdóma og gagnrýnandinn felldi óhikað yfir ýmsum
öðrum. Nú má auðvitað spyrja, hvort Ásgeir hafi ekki bara verið
alltaf svona ánægður með frammistöðu leikarans og ekki kunnað að
finna að neinu hjá honum. Einhvern veginn finnst manni það ekki
sennilegt og erfitt að verjast þeirri hugsun, að hér sé um dæmigerða
kunningjatillitssemi í litlu samfélagi að ræða; þeir Þorsteinn voru
auðvitað pólitískir samherjar og mjög vel kunnugir. Þetta ber alls
ekki að skilja svo, að yfirleitt sé ekkert að marka það sem Ásgeir
skrifaði um leik Þorsteins; síður en svo. Ásgeir var auðvitað um
margt ágætur gagnrýnandi og prýðilega stílfær, þó að hann hefði sín-
ar takmarkanir eins og aðrir. Það verður einungis að líta á hvern
vitnisburð fyrir sig, vega hann og meta með tilliti til þessarar hneigð-
ar og þess sem má lesa úr dómum annarra.