Andvari - 01.01.1995, Blaðsíða 169
ANDVARI
RÁN EÐA RÆKTUN
167
Gígju. Par var lýst flestum eða öllum meindýrategundum, einkum skordýr-
um, sem taldar voru mönnum hér á landi til ama, og gefin ráð til þess að
eyða þeim með eitri eða öðrum aðferðum. Guðmundur kveðst gera sér
Ijóst, að bókarhöfundur túlki viðteknar skoðanir á dýrum þessum og eigi
sér vafalaust miklu fleiri skoðanabræður en sjálfur hann, sem telji boðaðan
eiturhernað varhugaverðan og jafnvel stórháskalegan:
„Ég efast um að fólk yfirleitt geri sér grein fyrir því hvað tæki við, ef öll-
um skordýrum, sem nefnd eru í bókinni, og öðrum tilsvarandi, væri hér
útrýmt með öllu. Vissulega mundi eyðing skordýranna í landinu hafa í för
með sér að bergvatnsfiskar hyrfu með öllu, eða því sem næst, og veiðiskap-
ur hyrfi úr sögunni um leið. Hið sama ætti sér stað um alla skordýraætu-
fugla. Peir mundu hætta að fljúga til íslands, nema til þess að verða hung-
urmorða.“
Guðmundur bendir síðan á að þótt svonefndum meindýrum séu ætlaðar
allar þær „eiturblöndur og skaðavökvar“ sem upp er talið í bókinni, blasi
sú hætta við ef gálauslega sé að farið, að fleiri lífverur en ætlað var verði
fyrir tjóni eða bíði aldurtila. Fuglar séu í hættu, ánamaðkar, matjurtir, hús-
dýr og jafnvel börn og unglingar. Þá sé og þess að gæta að enn sé „órann-
sakað mál til hlítar, hvað sé meindýr og hvað illgresi.“ Við slíka dóma sé
margs að gæta, og hafa verði í huga lífkeðjuna í heild sinni. Kveðst Guð-
mundur vænta þess að áður en langt um líður renni upp þeir tímar, er fólk
komist á þá skoðun „að það sé ómannúðlegt að eyða dýrum með eitri, hve
lítilfjörleg sem þau kunni að vera, og það sé ekki samboðið þeirri lífveru,
sem telur sig standa nær guðdóminum en allar aðrar skepnur jarðar.“
Komið var að leiðarlokum. í hálfan fjórða áratug hafði Guðmundur Dav-
íðsson barist af kappi og miklu harðfylgi gegn ráni og gripdeildum úr
skauti náttúrunnar. Meðan kraftar entust þreyttist hann ekki á því að
brýna fyrir löndum sínum að raska ekki jafnvægi náttúrunnar, en læra að
fara með náttúrugæðin á skynsamlegan hátt.
Guðmundur hafði frá ungum aldri verið óþreytandi að afla sér þekking-
ar á áhugasviði sínu og varð með sjálfsnámi furðu fróður um náttúrufræði-
leg efni. Mun það og sannast mála, að ýmsar hugmyndir hans og tillögur
bera vott um ótrúlega glöggskyggni og framsýn.
Guðmundur Davíðsson andaðist 13. september 1953, á 79. aldursári. Að-
eins einum manni fannst taka því að minnast hans í blöðum landsins. Það
var Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, sem skrifaði um hann í Morgun-
blaðið af skilningi og hlýju. Þykir fara vel á því að gera tilvitnun í grein Há-
konar að lokaorðum þessarar ritsmíðar:
„Okkur sem nú vinnum í þeim anda sem Guðmundur Davíðsson kenndi,