Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar - 01.01.1949, Blaðsíða 53
ALMANAK
53
Hin dýrsta von í brjósti hennar var byggð á sannindum
kristinnar trúar; enda varð hún til mikils stuðnings kirkju
og söfnuði, og unni þeim hugástum. Hún var driffjöðrin í
kvenfélagi Konkordia-safnaðar; tillögur hennar sköpuðu
heildaráhrif. Hún var forseti kvenfélagsins um all langa
hríð, og heiðurs-forseti þess til æfiloka.
Kvenfélagið stofnaði til samkomu í apríl 1922 til arðs
fyrir söfnuðinn; var Oddný þar viðstödd með ráðum og
dáð.
Á þriðja degi eftir það hafði hún fótaferð, en kendi þó
lasleika, svo hún lagði sig fyrir á ný, og lézt þann dag.
Hjartað, sem búið var að bærast lengi öðrum til lífs,
líknar og blessunar, var þrotið að kröftum, og fékk ekki
haldið áfram lengur.
Hinn göfugi og glæsilegi æfiferill var á enda.
Vil eg tileinka henni orð Matthíasar:
“Gangið að leiði göfugrar konu,
hreinnar, hógværrar, hné beygjandi.
Liggur hér liðin laukur kvenna,
signuð Guðs lilja ljúf í dauða.”
Mörg virðingar og hlýleika merki vildu menn sýna
Oddnýju á meðan hún gekk óhöllum fæti. Hún var sí-ung
í anda, og hélt sálarkröftum til enda; er ekki mögulegt
að hugsa um hana sem konu, sem er komin á fallanda fót.
Þannig er minning hennar hjá öllum, sem þekktu hana.
Konur í Lögbergs og Þingvallabyggðum öfluðu fjár,
og keyptu skímarfont, sem þær gáfu til Konkordiakirkju
í minningu um Oddnvju og starf hennar.
Er skírnarlaug þessi hið glæsilegasta listasmíði úr
skygðum marmara; fer ekki hjá því, að gersemi þessi auki
vegsemd hússins, sem táknar hásæti Guðs dýrðar, og að
það afli því góðhugar meðal safnaðarmanna.