Helgafell - 01.12.1942, Page 148
418
HELGAFELL
taldi mig ekki geta gert betur. Hafði
ég þó ritað þá sögu fyrst sem smá-
sögu.
Enn þá verr gekk mér á sínum tíma
með Ströndina. Ég vann að henni
heilan vetur. Stundum fór ég á fætur
klukkan þrjú að nóttu og settist við
skrifborðið. Að verkinu loknu leið mér
illa, var eitthvað óánægður. Samt fór
ég í sparifötin og ætlaði að færa út-
gefandanum handritið, en fór eitthvað
að glugga í það, — og brenndi því að
þeim lestri loknum, brenndi hvertblað,
nema ofurlítinn ljóðrænan kafla, sem
mér þótti sérstaklega vænt um. Það
var mikill hörmungardagur, en ég
vildi ekki eiga á hættu að freistast til,
að nota kafla og kafla, sem að vísu
voru ekki alveg fráleitir, en samt ófull-
nægjandi. Því var bálförin ger, og af-
stýrði ég þannig þeirri hættu, að hand-
ritið truflaði mig. Kaflann, sem ég
hafði látið óbrenndan, setti ég fram-
an við textann, eins og hann varð,
þegar hann kom á ný úr deiglunni, en
ráðamaður útgefanda benti mér á, að
þessi inngangur væri eitthvað utan-
garna, og tók ég þá tvær línur úr hon-
um og felldi inn í miðja bókina, þar
sem þær gátu ekki hneykslað nokk-
urn mann. En þessar tvær línur eru
það, sem eftir varð af verki heils vetr-
ar. — Á líkan hátt fór fyrir mér um
söguna Sœlir eru einfaldir, nema þar
hætti ég í verkinu miðju og byrjaði á
nýjan leik.
Um Svartfugl er þessa sögu að
segja: Síðsumars árið 1913 átti ég leið
á skipi fram hjá Rauðasandi og var
af skipsfjöl sýndur bærinn Sjöundá
og sögð ásta-, glæpa- og raunasaga
þeirra Steinunnar og Bjama. Vissi ég
þá þegar, að ég ekki myndi losna við
það efni aftur án þess að gera því
nokkur skil. En ég fann á mér, að
bezt var að fara að engu ótt. Beið ég í
sextán ár með að vinna úr efninu. Á
þeim árum átti ég þó nokkrum sinn-
um leið um Reykjavík. Flesta þá
morgna, er ég vaknaði hér í bæ, fór
ég snemma á fætur og gekk upp á
Skólavörðuholt og oft lengra, en
kom alltaf við hjá Steinkudysi, þarsem
ólánskonan vestfirzka hafði verið urð-
uð. Mér fannst hún einhvern veginn
koma mér við, að ég stæði á einhvern
hátt í óbættri sök við hana og þau
Bjarna bæði. Villigötur geta fleiri far-
ið en þau; villigötur höfum við flest öll
farið. Þegar ég réðst loksins í að rita
söguna, — sem átti að heita Sjöundá,
— var mér orðið ósköp hlýtt til þess-
ara ólánssömu manneskja, en söguna
reit ég eins samkvæmt sannleikanum
og mér framast var unnt. — Annars
skiptir það litlu máli, hvernig bækur
verða til, og hef ég aðeins sagt frá
þessu að gamni. —
Hlutverk listamannsins í þjóðfélag-
inu er nákvæmlega hið sama og hvers
annars þegns: að þjóna þjóð og landi
eftir beztu getu. En leiðin til þessarar
þjónustu verður þeim, er við list fást,
vandrataðri en flestum öðrum, og
liggja til þess þau eðlilegu rök, að
hann verður að stika hana út sjálfur.
Fyrir kemur, að af honum er krafizt
einhvers þess, er ríður í bága við
skyldur hans við mannfélagið, og get-
ur hann þá aðeins þjónað landi sínu
og þjóð með því að vera trúr hinum
æðri skyldunum, hverjar afleiðingar
sem það kann að hafa fyrir sjálfan
hann.
Mér fyrir mitt leyti finnst, að
bræðralag í mannheimum sé hið eina,
er að sé vert að stefna og vinna fyrir.
Komi þetta fram í verkum mínum, ylji
þau öðrum brjóstum, veki þau menn
til þess, sem betur má fara, er ég á-
nægður og þakklátur, og má ef til vill
vona, að bækurnar, er ég fann ungur
í draumi við veginn, og reit síðan á
ýmsum aldri við veginn, einnig í
draumi, megi mæta öðrum á vegum
draums og lífs og hafa þeim eitthvað
það að færa, er þeir vildu síður hafa
án verið. Gunnar Gunnarsson.