Tímarit Máls og menningar - 01.05.1949, Page 72
134
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
lokið. Efnaðir menn koma og skoða, og litlu miðunum fjölgar, sem
segja til um það, að hér eftir muni myndin, sem okkur varð kærust,
verða heldramanninum Jóni Jónssyni einum til yndis. Þætti hennar
í okkar lífi er lokið. Ekki aðeins þætti einnar myndar, heldur oft og
tíðum ævistarfi mikils snillings.
Ef bók er skrifuð, eiga allir jafnan kost á henni. Ef gott leikrit er
samið, er það leikið opinberlega í fjölda ára, kannske aldir. Það er
almenningseign. Ef tónverk er smíðað, er það einnig almenningseign.
Hljómleikar, útvarp og prentaður texti er vettvangur þess. Þegar mikið
listaverk er málað, sem hrífur hugi allra, er sjá það, og á erindi til
hvers einasta manns, eru mestar líkur til, að það lendi í virðulegri
setustofu Jóns Jónssonar.
Við því er sízt að amast, þótt efnaðir menn kaupi góðar myndir,
heldur vex virðing þeirra að sama skapi. En menningarlegu hlutverki
listarinnar í þjóðlífinu er eftir sem áður ófullnægt.
Jafnvel þótt sýningar séu tíðar og vel sóttar, skapa þær hvergi nærri
hina nauðsynlegu heildarmynd, þá lífrænu framvindu, sem er menning
hvers lands. Því má heldur ekki gleyma, að hingað til hefur íslenzk
list því miður einungis takmarkazt við Reykjavík. Og jafnvel þótt
fólk komi til höfuðstaðarins með nokkurra ára millibili, er mjög
ósennilegt, að það geti gert sér nokkra hugmynd um það, sem er að
gerast á þessu sviði. Aðstæðurnar eru heldur ekki örvandi fyrir þá
ungu listamenn, sem eru að vaxa úr grasi. Það er þeim bein og
óhjákvæmileg nauðsyn að kynnast því, sem gerzt hefur í listþróun
þjóðarinnar, en á því eru engin föng. Þannig rofnar hið eðlilega þró-
unarsamband, og í stað framhalds verður kyrrstaða.
Þannig ríkir algjört misræmi á milli þeirrar ágætu myndlistar, sem
við eigum, og áhuga manna fyrir henni annars vegar, og hins vegar
þeirra tækifæra, sem henni eru veitt til að marka sér samboðið svigrúm
í menningarlífi þjóðarinnar.
Um allmörg ár hefur hið opinbera keypt listaverk. Þótt kaup þess
hafi á tíðum frekar borið þann blæ, að verið væri að gefa ölmusur
en að tryggja þjóðinni góða gripi, og þótt þeir menn hafi oft ráðið
þessu, sem betur eru til annars hæfir, er því ekki að neita, að safn
þetta er orðið æði drjúgt, bæði að magni og gæðum.
En þrátt fyrir þessa eign sína, er almenningur lítils vísari. Ekki er