Tímarit Máls og menningar - 01.05.1953, Blaðsíða 32
22
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
margir áhrifamenn í vinstra armi flokksins sjálfs mjög óánægðir og
töldu stefnu Chiang-Kai-sheks, einkum gagnvart útlendingum vera hin
verstu svik við stefnu Sun-Jat-sens. Þeir átöldu það og að hann legði
umbótastefnu Kuo-min-tang flokksins á hilluna og gerðist fulltrúi auð-
jöfra og stórjarðeigenda. Mesta hættan, er steðjaði að Chiang-Kai-shek
og stjórn hans, stafaði þó frá kommúnistum og bændum. Kommúnistar
voru í fyrstu fulltrúar verkamanna einna, en verklýðshreyfingunni í bæj-
unum var haldið niðri með mestu hörku. En víða í sveitunum var and-
úð bænda á jarðeigendum orðin svo megn að allt logaði í uppreisnum,
sem í fyrstu höfðu litla forystu. En þá rann það upp fyrir foringjum
kommúnista að hinir fátæku bændur í Kína voru mikilvægasta þjóðfé-
lagsstéttin og gerðust foringjar í baráttu þeirra. Þeir náðu sér ótrú-
lega fljótt eftir hina miklu ósigra og manntjón árið 1927 og komu sér
upp bækistöðvum víða um landið. Mest varð ríki þeirra í Kiangsi og
Fukien fylkjum. Foringi þeirra þar og leiðtogi hinnar miklu bænda-
uppreisnar var Mao-Tse-tung. Árið 1931 stofnuðu þeir þar ráðstjórn-
arríki og var Mao höfuðleiðtogi þess. Þá fór og að bera á ýmsum öðr-
um hinna frægustu foringja kínverskra kommúnista svo sem Chu-En-
lai og Chu-Teh. Höfðatriði stefnuskrár þeirra voru umbætur á högum
bænda og öflug barátta gegn erlendu valdi. Chiang-Kai-shek bauð út
miklum herjum gegn kommúnistum og átti við þá bæði harða og langa
viðureign. Honum tókst loks árið 1934 að hernema ríki þeirra í ofan-
nefndum fylkjum, en allmiklum her kommúnista tókst þó að komast
undan. Fór þessi her til fylkjanna Shensi og Kansu í Norður-Kína og
þótti sú ferð þeirra mikið afreksverk. Þar stofnuðu þeir nýtt ríki með
Jenan sem höfuðborg. Voru fyrrgreindir kommúnistaforingjar valda-
mestu menn þessa ríkis.
Árið 1931 réðust Japanir á Kína og hernámu Manchúríu, sem er frá
náttúrunnar hendi eitthvert auðugasta fylkið í ríkinu. Þar eru bæði kol
og járn, ennfremur mjög mikið af frjósömu landi. Stefna leiðandi
stjórnmálamanna Japana var sú að gera Japana að forystuþjóð í aust-
urlöndum, og fyrsta sporið til þess var að ná Kína á vald sitt, undiroka
þjóðina og nytja auðlindir landsins. Árás Japana gerbreytti öllum við-
horfum í stjórnmálum meðal Kínverja. Almenningur krafðist þess að
allar innanlandsdeilur yrðu jafnaðar og Kínverjar snérust allir sem
einn maður gegn Japönum og rækju þá af höndum sér. En lengi vel gat