Tímarit Máls og menningar - 01.05.1953, Page 68
58
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
fulls. Þetta fína fólk, sem þú kallar svo, eins og kaupfélagsstjórahjón-
in, prestshjónin og læknishjónin, það sýnir þegnskap og ábyrgðartil-
finningu, betur en flestir aðrir með því að gefa það sem það hefir gef-
ið. Það gefur ekki peninga, en það gefur dýrgripi, sem því eru miklu
meira virði en peningar. Það kann að fórna, þegar við á.
Konan gafst upp fyrir ofurþunga þeim, er fólst í orðum hins ábyrga
eiginmanns, og eiginmaðurinn mildaðist og fór að segja henni hrafl úr
ferðasögu sinni.
Allt hafði eiginlega að óskum gengið. Fólk hafði yfirleitt sýnt fullan
þegnskap og ábyrgðartilfinningu í þessu máli. Þessi hafði gefið þetta
og hinn hafði gefið hitt. Allt lá nú þetta svo sem uppteiknað þarna á
blöðunum á borðinu, sem hún hafði verið að rýna í. Það var aðeins
einn skuggi, sem hvíldi yfir þessu gifturíka starfi. Hann granni þeirra,
hann Árni í Nesi, hafði ekki viljað neitt láta af hendi rakna og var auk
þess með einhvern skæting út í allt þetta uppistand, eins og hann orðaði
það.
Konan, sem vissi upp á sínar tíu fingur, hvað það gilti að daufheyr-
ast við kalli flokksins, varð skelkuð yfir því að hafa svona mann í
næsta nágrenni og spurði í fáti:
En hvað verður gert við hann. Verður hann ekki settur utangarðs
við þjóðfélagið?
Arnfinnur klóraði sér bak við eyrað og svaraði eins og sá, sem veit
meira en hann lætur uppskátt, en svo hafði hann oft heyrt þingmann-
inn gera. — Ja, þetta þarf náttúrlega að athugast vel og eiginlega gáfu
þeir í flokknum engin skýr fyrirmæli um það, hvernig þetta yrði í
framkvæmd. í fyrsta lagi afþakkaði ég kaffið, sem ég átti að fara að
drekka og hélt leiðar minnar, en svo verðum við vitanlega að varast
allt samneyti við hann fyrst um sinn, sjá hverju fram vindur og bíða
eftir nánari fyrirmælum að sunnan.
Meðan þessu fór fram í stofunni, lá tíkin í anddyri hússins og hvfldi
sinn lúna skrokk. En allt í einu þaut hún upp með gelti og klóraði í
hurðina og skömmu síðar var drepið á dyr.
Konan gekk til dyra og hugði að gestkomu. Að vörmu spori kom
hún þó aftur felmtsfull á svip og dró tíkina með sér.
Hvað ertu að gera með kvikindið, kona, hvað er að? spurði eigin-
maðurinn furðu lostinn.