Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Page 4
Ádrepur
Gubmundur Andri Thorsson
B ernskuminningar
Fyrir áramót hélt Félag áhugamanna um bókmenntir fund um „stöðuna" og var ég beðinn að
spjalla þar um skáldsögur undangenginna ára. Þetta sem hér birtist er byggt á því.
Bókmenntaumræðan hér einkennist lítið af umfjöllun um bækur. Meira er um
að rætt sé um persónur og skiptast menn í flokka eftir því hvernig þeim líkar við
þær persónur. Annað sem mótar hana er að allir sem taka til máls vilja vera á
undan umræðunni, í hópi skörpustu lesenda sem sjá í gegnum húmbúgg og láta
ekki ærandi fjölmiðladyninn rugla sig í ríminu, heldur mynda sér skoðanir óháð
öllu skrumi auglýsingamanna. Þess vegna einkennist fjölmiðlaumræðan af
árásum á þá sem hossað var stuttu áður — samkeppnin stendur um það hver
fyrstur sé að sjá í gegnum platið og segja: hann er í engum fötum. Sífellt er verið
að reyna að sjá út eitthvað sem orðið hefur undir í fjölmiðlasukkinu; því er
hrósað með almennu orðagjálfri um að vel sé skrifað, án þess að því sé lýst
nánar, og síðan er gjarnan sagt: Þetta er nú ekki eins og hitt sem allir eru að tala
um og fjölmiðlarnir eru að auglýsa upp, þessi höfundur er aldeilis ekki að troða
sér í sjónvarpið heldur vinnur af heilindum. Umræðan er sem sé alltaf neikvæð
vegna þess að hún er aldrei um sjálf skáldverkin — það er sífellt verið að reyna
að koma að skotum og pillum á einhverja sem ekki eru beinlínis til umræðu. Og
jafnvel þótt verið sé að hrósa verki þá er það ævinlega gert í andstöðu við hitt
sem fram að þessu hefur verið hrósað; sett upp sem valkostur hins alvarlega
þenkjandi bókmenntaunnanda við skruminu.
Fyrir nokkrum árum var enginn framsækinn nema hann hreytti einhverju úr
sér um nýraunsæið. Lof um öll skáldverk var á eina lund: þetta væri nú eitthvað
annað en þessir nýraunsæispennar, jafnvel þótt slíkir ættu í hlut. Núna sæta þau
sem seldu vel síðustu vertíð — einkum Thor og Steinunn — ákúrum fyrir að vera
alltof skemmtileg í sjónvarpi og er einna helst að skilja að sé höfundur nýrrar
bókar sá hégómlegi loddari að láta yfirleitt sjá sig á götum úti, eigi hann að
minnsta kosti að gæta þess velsæmis að vera bæði önugur í viðmóti og fýlulegur
130