Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Page 38
Tímarit Mdls og menningar
vekjunni bresku, „terror tales“ eins og „Leyndardómum Udolfokastala“
eftir Anne Rathcliff, á sögum eftir Maturin og Lewis, eða „roman-feuil-
leton“ frönskum — Leyndardómum Parísarborgar eftir Eugene Sue, Endur-
minningum djöfulsins eftir Frederic Soulie og spennusögum Pauls de Cock.
Og það var skemmra en margir ætla á milli þessara bókmennta í hugum
manna og í reynd og svo sögulegra skáldsagna Walters Scotts og doðranta
Victors Hugo og sjálfs Balzacs. Mætti kannski segja sem svo að meira flakk
hafi þá verið stundað á milli hámenningar og lágmenningar en síðar varð,
þegar hrollvekjan og morðgátan voru orðnar að sérhæfðri fjöldaframleiðslu,
sem lifir um marga milliliði sníkjulífi á þeim reyfurum og ævintýrasögum,
sem menn vita að Dostojevskí las í æsku og var mjög hrifinn af.
I þessum sögum fann hann saklausa fegurð í bráðum háska, hann fann þar
hið háskalega örlagakvendi sem ögrar körlum frá viti og ráði, hann fann
hinn fagra og heillandi freistara, sem á ættir að rekja til Satans sjálfs, hins
fallna engils. Hann fann þar skírlífi skækjunnar, háskalega töfra kvalalostans
og margt fleira sem gengur aftur í flestum hans sögum. Endurminningar
andskotans eftir Soulié hafa sett sinn svip á djöfulinn sem Ivan Karamazov
ræðir við áður en hann hrekkur upp af standinum. Hjá Eugene Sue í
Leyndardómum Parísarborgar, rekst hann á Rúdolf, dularfullan og fríðan
aðalsmann, sem er á spilltu flakki meðal úrþvætta og öreiga stórborgarinnar
— og flytur þessar áráttur yfir á Stavrogín í Djöflunum, til þess m.a. að
hefna sín á rússneskum róttæklingum. Svo mætti lengi áfram telja.
Hugsum okkar sögu sem segir frá þessu hér: Illmenni af göfugum ættum,
djöfullega fagur, dregur blíða og saklausa stúlku á tálar, hirðir eigur hennar
og lætur hana lönd og leið. Stúlkan, sem elskhuginn hefur yfirgefið og
strangur faðir rekið frá sér, sekkur í fátækt og örbirgð, veikist af berklum,
missir vitið og þvælist í ráðleysi um götur stórborgarinnar og biður um
ölmusu fyrir sig og barn sitt. Rétt áður en hún deyr úr hungr: og sorg ætlar
faðir hennar að sættast við hana, en kemur of seint, hann hittir fyrir lík sem
rétt er byrjað að kólna. Ný saga hefst af dóttur hennar, full með skelfilegar
ofsóknir og undursamlega heppni — henni er misþyrmt, hún er seld í
vændishús, en henni er bjargað fyrir kraftaverk og undir lokin kemur í ljós
að hún er í rauninni dóttir frægs fursta, sem þar að auki var giftur móður
hennar sálugu!
Þetta er ekki Leyndardómar Parísarborgar, þetta er þráðurinn í skáld-
sögunni Hin niðurlægðu og auðmýktu, sem Dostojevskí skrifaði um 1860.
Hún er að sönnu ein lakasta saga hins rússneska jöfurs. En sjálf þessi
endursögn minnir rækilega á það, hve ríkan þátt í aðferð Dostojevskís áttu
þau meðöl, sem reyfarinn hefur stutt sig við, fyrr og síðar. Dostojevskí
notaði þau til að verða ekki leiðinlegur, þá synd mátti skáldsagnahöfundur
164