Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Side 56
Tímarit Máls og menningar
það eru viðbrögð hennar í lok verksins, sem gera það að grátlegum
harmleik.
Eg minnist þess frá fyrri árum að ljóð Jónasar voru mikið sungin, bæði
rauluð heima fyrir og sungin á samkomum. Enn munu flest þessara ljóða
vera sungin, sum oft, svo sem Stóð eg úti í tunglsljósi, Dalvísur og Eg bið að
heilsa, sem ef til vill er fegursta sonnettan, sem við eigum, og mörg fleiri, en
eg hef saknað þess, að nú heyrist varla það kvæðið, sem hvað oftast var
sungið fyrrum og þótti sjálfsagðast af öllu sjálfsögðu að fara með ef lagið var
tekið á mannamótum, Vísur Islendinga eða „Hvað er svo glatt“ eins og það
var alltaf kallað. Þetta bjarta æskuglaða og þó angurværa ljóð, sem manni
var svo inngróið. Mér fannst það næstum vera þjóðsöngur.
Jónas Hallgrímsson nam náttúrufræði við Hafnarháskóla og ferðaðist um
Island í nokkur sumur við ýmiskonar rannsóknir. Hann er talinn hafa verið
merkur vísindamaður á sviði náttúruvísinda og allt slíkt mun honum verið
hafa kært og hugleikið, gróður, dýr og landslag. Hann þekkti öll tilbrigði
íslenskrar náttúru og næmleiki hans og innlifun gæddi ljóð hans þeim
töfrum, sem maður finnur djúpt í sálinni, en fær ógerla lýst með orðum,
fremur en hinum dulúðga trega í vísunni hans um brotnu barnagullin.
Islendingar hafa orkt alveg óskaplega mikið og margt um landið sitt, sögu
þess, landslag og óendanlegan breytileik náttúrunnar í blíðu og stríðu. Allur
þessi skáldskapur hygg eg að sé einlægur og sannur, bæði kveðlingar alþýð-
unnar og kvæði þjóðskáldanna, en sjálfsagt eins margbreytilegur að gerð og
skáldskapargildi og höfundarnir eru margir. I þessum elskulega ástarljóða-
kór til Islands á Jónas sinn sérstaka tón. „Hann er engum líkur“ sagði systir
mín einhverntíma, þegar við minntumst á þessi efni. Hann talar við blómin
með þeirri hófstilltu viðkvæmni, sem honum er lagin:
Vesalings sóley! sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt;
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
Eða:
Fífilbrekka! smáragrund!
yður hjá eg alla stund
uni best í sæld og þrautum.
Hann segir frá íslenskri sveitasælu á vori, eins og hún gat verið, þegar
veður voru blíð og ekkert sérstakt amaði að:
182