Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Síða 92
Tímarit Máls og menningar
aðkomumanna og um nýjan innri styrk. Yfirleitt hafa skáldverk um þessi
efni verið fyrirsjáanleg að því er varðar atburðarás og persónusköpunin í
lágmarki. Nýlega hefur Molly Keane blásið fersku og frjósömu lífi í efnivið-
inn með mjög persónulegri frásögn af þvílíku hruni, saminni í hnökra-
lausum stíl og læsilegum skemmtitóni.
En áhrifamesti höfundur í þessari grein hefur verið Jennifer Johnston, sem
fjallað hefur um efnið með táknrænum hætti. Hún hefur dregið upp skýra
og lifandi mynd af Irlandi samtímans, en efnismeðferðin vísar langt útfyrir
írsku spurninguna. Verk hennar eru knöpp og beinskeytt og skáldsögurnar
taka á sig svipmót dæmisagna. Styrkur hennar er í því fólginn að gera þessar
dæmisögur trúanlegar í nöktum og ófegruðum lýsingum á veruleikanum.
„How Many Miles to Babylon“ (1974) er sennilega besta verk hennar.
Meginstefið er vinátta ensk-írsks lögerfingja og drengs úr næsta þorpi með
fyrri heimsstyrjöld í baksýn. Dregin er upp heillandi mynd af stéttamun og
því sem mennirnir eiga sameiginlegt þegar allt kemur til alls.
Styrkur Jennifer Johnstons varpar líka ljósi á annað auðkenni írskrar
sagnagerðar, vanmátt hennar eða tregðu til að fást við Irland samtímans, og
raunar veröld samtímans. Einnig að þessu leyti hafa þeir Joyce og Beckett
ekki getað knúið samlanda sína til að læra af fordæminu. Fortíðin virðist
vera meira freistandi og sennilega ekki eins kröfuhörð, nema farið sé að
dæmi Banvilles og hún notuð einsog spegill eða skurðhnífur til að rannsaka
samtímann. Brian Moore kemst í stórum dráttum undan þessum hömlum. I
skáldsögunni „The Lonely Passion of Judith Hearne" (1955) kannar hann
Belfast í háðsku ljósi kaþólskra viðhorfa í borginni. Hann skrifar með
fagmannlegu áreynsluleysi Trevors, setur söguefnið í fastmótað kerfi og fer
ekki í launkofa með snyrtilega hagræðingu allra þráða. En í verkum hans er
samt annað og meira, semsé djúpt og ósvikið innsæi í þau myrku öfl sem eru
undirrót ástandsins í Ulster. Skáldsagan „The Revolution Script“ fjallar um
atburðina í Quebec 1970, þegar Þjóðfrelsisfylking Quebecs rændi þeim
Cross og Laporte. Þessi samtímafrásögn er í senn könnun á aðstæðum
franskra kaþólikka í Quebec og írskra kaþólikka í Ulster, sem eru nálega
samkynja.
Einn þeirra ungu höfunda sem tóku sér fyrir hendur að kafa til botns í
djúpum samtímans á Irlandi er Neil Jordan, en árangur hans á ritvellinum
hefur fallið í skugga velgengninnar í kvikmyndaheiminum, þarsem hann
hefur starfað að gerð kvikmynda undir leiðsögn Johns Boormans. Fyrsta
bók Jordans var smásagnasafnið „Night in Tunisia”, sem ruddist djarflega
framá sviðið í lok áttunda áratugarins og fjallaði meðal annars um fíknilyf,
samkynhneigð, firringu ungu kynslóðarinnar frá kynslóð feðranna, en lagði
218