Tímarit Máls og menningar - 01.06.1990, Blaðsíða 76
Tveir Diletto, brauð og mjólkurkex og þrjú epli — það voru innkaupin fyrir
helgina. Og lítið fiskflak, sem hann rámaði reyndar í að hefði verið í fiskfatinu
síðustu helgi líka, en hvað um það. Hann virti konuna fyrir sér á meðan hún
sló upphæðirnar inn á litla reiknivél. Sloppurinn þrengdi mjög að brjóstunum,
hún hafði fitnað dálítið síðustu vikur en vildi ekki viðurkenna það með því að
fara í stærri slopp. Hann kímdi með sjálfum sér. Ekki ómyndarleg svona,
bústið hold var betra að klípa í. Og varimar ennþá kyssilegar þrátt fyrir
fimmtíu árin. Hún mátti líka eiga það að hún hélt sér vel til, dökkbrúnt hárið
alltaf lagt, og vel máluð.
Hann hafði tekið eftir því að hún horfði mikið á hann. Sérstaklega þegar
þau voru ein í búðinni. Stundum þegar hann sneri baki við henni og var að
velja nýja kextegund að smakka, hafði hann litið snöggt við. Það brást ekki
að hún lá fram á afgreiðsluborðið og mændi á hann. Henni leist vel á hann,
um það var ekki að villast. Og hann hafði snúið sér aftur að kexinu og glott í
kampinn.
Tveir litlir strákar komu inn, báðir með lafandi hor og eldrauð eyru og
kinnar.
„Tólf hundruð og áttatíu og sjötíu,“ sagði Jóna Ingibjörg og brosti enn.
„Bættu við einum súpupakka,“ sagði hann og teygði sig yfir strákana í
sveppasúpu, en ýtti um leið við nokkrum hvítkálssúpum sem féllu á gólfið.
Hann gretti sig. Brosið hennar Jónu Ingibjargar var kyrrt á sínum stað.
„Strákar mínir,“ sagði hún. „Takið nú upp súpurnar fyrir gamla manninn
og setjið þær í hilluna.“
Þeir hlýddu, tíndu pakkana upp og röðuðu þeim í hilluna. Maðurinn stóð
dolfallinn. Honum hafði ekki misheyrst, „gamla manninn“, gamla. Reiðin
byrjaði að ólga neðst í maganum, færðist upp í brjóstkassann og þaðan upp í
höfuðið og út í handleggina. Hélt hún virkilega að hann væri einhver úr sér
genginn lúinn gamall karl?
Hún var ennþá brosandi þegar hún rétti honum afganginn, setti vörurnar í
poka og bauð honum góða helgi. Hann sneri sér þegjandi frá og ætlaði að arka
út þegar hún kallaði á eftir honum og hann kom aftur að borðinu, reiðubúinn
að taka brosandi við afsökunarbeiðninni sem hann áleit að væri í vændum.
„Fyrirgefðu, Sigurður,“ sagði hún þegar hann kom aftur að borðinu. „Eg
74
TMM 1990:2