Tímarit Máls og menningar - 01.06.1990, Blaðsíða 61
höfundar því að hafa tekið undir sig allrösk-
legt saltomortale á þessum stað. Að lokum
má bæta því við, að þar sem þegar er búið
að tala um lifandi veru, Ymi, í vísunni,
getur orðið „gras“ í síðustu ljóðlínunni ekki
lengur verið pars pro toto fyrir „líf“, og þá
getur síðasti visufjórðungurinn ekki verið
lýsing á líflausu tómi. Við þetta slaknar
mjög á tengslum orðanna „en gras hvergi“
við það sem á undan er komið og þau missa
mest af sínum krafti.
Með því að skipta vísunni eins og
kommusetning Gísla gefur til kynna kubb-
ast þráðurinn þannig margsinnis í sundur:
„ár var alda“ svífur í einangrun og krefst
framhalds sem kemur ekki, neikvæða upp-
talningin, sem virðist a priori mynda skýra
heild, klofnar í tvennt og eru brotin engan
veginn hliðstæð heldur eiga þau heima í
ólíku samhengi, og endirinn flýtur burtu.
Nú kann einhverjum að finnast að það sé
varla ómaksins vert að eyða löngu máli í að
ræða túlkun á vísunni sem gefur ekki betri
raun en þetta, en það má líta á hana sem
nokkurs konar sönnun ab absurdo fyrir því
að með því að lesa „þar er Ýmir byggði“ í
annarri ljóðlínu sé ekki hægt að fá nokkurn
hugmyndalegan þráð í vísuna, og er þá ekki
til einskis unnið.
Þá er aftur komið að þeirri spumingu hvor
textinn sé upprunalegri. I útgáfu sinni legg-
ur Gísli áherslu á að „meðan kvæðin (séu)
þáttur lifandi hefðar (verði) þau að hafa
merkingu eins og þau eru“ (bls. 89). og
virðist þetta vera ein af röksemdum hans
fyrir því að menn eigi að líta á hverja kvæð-
isheild eins og hún er og ekki blanda inn í
hana öðrum textaafbrigðum. í munnlegum
flutningi danska þjóðsöngsins geta menn
heyrt „det er Freyas sal“ og einnig „det er
fjerde sal“, og hafa víst bæði afbrigðin
merkingu eins og þau eru, ekki vantar það.
En það væri samt fráleitt að leggja þau að
jöfnu hvað merkingu snertir. Nú má segja
að ljóðlínan „þar er Ýmir byggði“ hafi sína
merkingu, en athugunin hefur leitt í ljós að
þessar tvær gerðir þriðju vísu Völuspár sem
varðveittar eru geta ekki á nokkurn hátt
talist hliðstæðar: á þeim er slíkur munu að
óhugsandi er að bæði afbrigðin hafi fylgt
kvæðinu frá upphafi. Þá er ekki nema um
tvennt að velja: 1) að höfundur Völuspár
hafi að vísu verið innblásið skáld, en hann
hafi ekki haft fullt vald yfir hugarflugi sínu
og hafi hann sett Ými inn í vísuna án þess
að átta sig á mótsögninni sem þannig mynd-
aðist, og án þess að átta sig á því hvernig sú
hugsun sem var að brjótast um í honum
brotnaði sundur, svo hafi annar komið og
séð hvað betur fór og hafi hann lagað vís-
una. 2) Að höfundur Völuspár hafi vitað
nákvæmlega hvað hann var að segja og
hann hafi sett fram á sinn skáldlega hátt
heimspekihugmyndina um neind og tóm án
nokkurrar mótsagnar, en þegar kvæði hans
fór síðan að ganga manna á meðal, hafi
einhver annar komið sem kunni goðafræði
en hafði minni skilningi á meðferð heim-
spekilegra hugtaka og hafi hann bætt Ými
inn í vísuna. Frá sjónarmiði hans gat vísan
haft skýra merkingu eins og hún var þá
orðin: hann fann þar sinn Ými, en um blæ-
brigði — og merkingu — skilgreiningar-
innar á neind skeytti hann minna og tók ekki
meira eftir því að hún afbakaðist en ýmsir
ritskýrendur nútímans.
6. Á indíánaslóðum
Mérfinnst síðari kosturinn sennilegri og lái
mér það hver sem vill. En málinu er reyndar
þannig háttað, að í valinu þarf maður ekki
einungis að fara eftir sínum eigin smekk og
heimspekiviðhorfum: hægt er að líta á það
frá víðtækara sjónarmiði og er þá komið að
nokkru sem er talsvert mikilvægara en
textaafbrigði í einni ljóðlínu. Lesendum er
vafalaust fyrir löngu orðið ljóst, um hvað
þessar deilur um „munnlegu kenninguna“
snúast í raun og veru og hvað er í húfi:
TMM 1990:2
59