Tímarit Máls og menningar - 01.06.1990, Blaðsíða 87
um. Var eitthvað að hrynjandinni, mynd-
málinu eða þeirri stíltegund sem kvæðið
var ort í?
Ymsir heimspekingar hafa bent á að
finna megi röktengsl milli hugtaksins
„ástæða“ annars vegar og hugtaksins
„rök“ hins vegar.1 Að tilgreina ástæðuna
fyrir því að maður hafi tiltekna skoðun er
sumpart að rökstyðja hana. En heilbrigð
skynsemi segir okkur að ekki hvaðeina
geti talist góð og gild ástæða fyrir tiltek-
inni skoðun. Segi vinkona vor að henni
líki kvæði X af því að bróðir hennar orti
það, á hún hrós skilið fyrir einlægni en
ekki rökvísi. Hún hefur nefnilega misskil-
ið eðli fagurfræðilegra dóma, en í slíkum
dómum ber að nefna til sögunnar meintar
eigindir listaverka. Ef við þrengjum ekki
merkingu hugtaksins „fagurfræðilegur
dómur“ með þessum hætti er hætt við að
hugtakið taki að merkja allt og ekkert og
verði því inntakslaust. Ljóst er að fjöl-
skyldutengsl skáldsins eru ekki eigindir
kvæðisins og því er „rökstuðningur“ kon-
unnar fyrir dómi sínum um kvæðið út í
hött. En mér sýnist að rökstuðnings sé
fremur þörf í umfjöllun um listastefnur en
einstök listaverk.
Þegar nýstefnan kom fram æpti hún
beinlínis á rökstuðning. Það þurfti að rök-
styðja að þessi framandlega list bæri nafn
með réttu, væri list í raun og sannleik.
Segja má að á byltingarskeiðum í listum
sé rökfærsla mikilvægari en ella og í
þessu sambandi getum við lært af Thom-
asi Kuhn. Alla jafna ríkir samkvæði um
vísindaleg viðmið (,,paradigma“) sem
vísindamenn vinna eftir. Venjubundin
vísindamennska minnir fremur á hand-
verk en heimspeki. Vísindamennirnir ef-
ast ekki um meginreglur fræða sinna,
segir Kuhn. En á byltingarskeiðum eru
forsendur fræðanna endurmetnar og
„byltingarforingjarnir" réttlæta nýjar
hugmyndir með rökum sem minna á
heimspekilega rökfærslu. Það er tæpast
tilviljun að flestir frumherja nútíma eðlis-
fræða skrifuðu heimspekirit í frístundum.
Og það er heldur ekki tilviljun að frum-
kvöðlar nýstefnu réttlættu margir hverjir
amstur sitt í stefnuskrám, sem ýmist voru
kenndar við súrrealisma eða fútúrisma.
En á tímaskeiðum þess sem ég kýs að
kalla „venjulistir“ þegar sættir ríkja um
meginreglur, líkist umfjöllun um listir
meir boðskiptum handverksmanna en
rökræðum heimspekinga. „Venjulist“
nota ég um það sem ég tel vera listræna
hliðstæðu þess sem Kuhn kallar „hefða-
fræði“ (e. normal science). Á tímum
hefðafræði vinna menn eftir ákveðnum
forskriftum og fyrirmyndum, Kuhn talar
um „viðmið“. Kalla má rímnahefðina
„venjulist“ því hún einkennist af gefnum
forskriftum. Jónas Hallgrímsson er þá
byltingarlistamaður meðal annars vegna
þess að hann færir skipuleg rök fyrir því
að rímumar eigi ekki rétt á sér lengur.
Til að skýra betur hvað ég á við með
„venjulist“ skulum við ganga í smiðju til
heimspekingsins Ludwigs Wittgensteins.
Hann lýsir því hversu hlutstæð umfjöllun
um listir getur verið. Við tökum dæmi og
berum listaverk saman, sýnum fremur en
segjum. Og tónskáldið sest við píanóið og
sýnir hvernig leika beri ákveðið verk rétt
eins og handverksmaður sem sýnir hvem-
ig vinna beri ákveðið verk. Við þurfum
ekki á hugtökum eins og „fallegt“ að
halda, okkur nægir að sýna hvernig okkur
finnst að listaverk eigi að vera.‘ „Sérðu
hve miklu betra kvæðið hefði orðið ef
TMM 1990:2
85