Tímarit Máls og menningar - 01.09.1998, Page 131
PÓSTMÓDERNISMI SEM HEIMSPEKILEGT HUGTAK
ismum og póstmódernismi af hvaða tagi sem er fordæmdur sem gervivís-
indi. Ég mun ekki ræða greinaflokk Kristjáns um þetta mál. Þar hafa aðrir
orðið fyrri til.2
Til þess að sýna fram á að póstmódernismi/módernismi séu ekki afarkost-
ir sem við stöndum frammi fyrir mun ég í öðru lagi færa rök fyrir því að það
sé bæði mögulegt og nauðsynlegt að greina á milli „sterks“ og „veiks“ póst-
módernisma. Sterkur póstmódernismi lendir bæði í mótsögn við sjálfan sig
og við módernisma og er því í andstöðu við grundvallar siðferðileg og þekk-
ingarfræðileg viðmið upplýsingarinnar sem eru kjarni þeirrar heimspeki
sem má auðkenna sem móderníska í þessu samhengi. (Síðar verður nánar
vikið að sambandi upplýsingar og módernisma.) Það sem má auðkenna sem
„veikan“ póstmódernisma er að nokkru eða miklu leyti samræmanlegt sið-
fræðilegum og þekkingarfræðilegum uppistöðum upplýsingarinnar og
módernískra viðmiða. Reyndar má fullyrða að þessir straumar innan hinnar
svokölluðu póstmódernísku heimspeki séu bundnir þeirri gagnrýnu hefð
sem hefur allar götur verið fylgifiskur hinnar heimspekilegu upplýsingar.
Skynsemishyggju upplýsingarinnar hefur oftast nær fylgt skynsemisgagn-
rýni sem ígrundar takmörk skynsemi og þá um leið möguleika hennar. Þeir
heimspekingar sem telja má til „veikra“ póstmódernista í þessum skilningi
eru meðal annarra Michel Foucault og Jean Francois Lyotard, enda eru þetta
höfundar sem á einn eða annan hátt telja sig eiga þátt í „nýrri upplýsingu"
annars vegar og eru hins vegar gagnrýnir á eyrnamerkingu heimspeki sinnar
sem póstmódernisma.3
Grundvallarviðmið upplýsingarinnar, sem eiga sér rætur í hugmyndum
heimspekinga þessa tímabils um skynsemi og ffjálsa notkun hennar, hafa frá
upphafi sætt gagnrýninni umfjöllun. Skynsemishyggju upplýsingarinnar
hefur ævinlega fylgt skynsemisgagnrýni, sem hefur verið prófsteinn á mátt
og megin mannlegrar skynsemi með vísun til hinna „dökku“ hliða skynsem-
innar eða þess óhugnaðar sem hrein vitsmunaleg verkfærahyggja getur getið
af sér. í ljósi þessa hverfist deila skynsemishyggju og skynsemisgagnrýni um
tvö meginhugtök: Skynsemishyggjan ver algildi skynsemisviðmiða sem
kveða á um að þau geti gilt fyrir alla og við allar aðstæður. Skynsemis-
gagnrýnin dregur meint algildi slíkra viðmiða í efa og leiðir getum að afstæði
lögmála um réttlæti og frelsi - sem eru siðferðileg leiðarljós upplýsingar-
innar - sem skynsemishyggjusinnar telja að eigi sér grundvöll í upplýstri
skynsemishugsun. Togstreita póstmódernískrar gagnrýni og módernískrar
heimspeki sem heldur fast í skynsemishyggju upplýsingar snýst enn sem fyrr
um afstæði og algildi. Þetta sést einna gleggst í heimspekilegri siðfræðium-
ræðu samtímans sem hverfist í grundvallaratriðum um möguleika algildra
siðferðisviðmiða, eins og t.d. mannréttinda, andspænis menningarlegu af-
TMM 1998:3
www.mm.is
129