Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Blaðsíða 85
aðlögun taka nýir grunntónar sem fmna má í mismunandi trúarhefðum að
hljóma saman með nýju móti í gefandi návígi hefðanna. I þjóðfélagslegri og
menningarlegri aðlögun lagar trúarstofnun starf sitt og áherslur að ríkjandi
aðstæðum í samfélaginu.
Sé litið til íslenskrar kirkjusögu á 20. öld og það sem af er þeirri 21.
blasir við að á fýrri hluta 20. aldar gætti hér aðlögunar. Það kemur m.a.
fram í þeim guðfræðistefnum sem ríkjandi voru og fólu í sér sterka viðleitni
til að mæta þeim ögrunum sem félags- og menningarlegar aðstæður fólu
í sér. Einstaklingshyggjunni skyldi m.a. mætt með auknu kenningarfrelsi
presta og valfrelsi safnaða. Fjölhyggjunni var mætt með þverrandi áherslu á
hefðbundnar játningar kirkjunnar og kirkjukenninguna í heild. Vísinda- eða
raunhyggju nútímans var mætt með sögulega gagnrýninni biblíutúlkun og
tilraunum til að sanna ódauðleika sálarinnar, upprisuboðskapinn, lækninga-
undur Nýja testamentisins og fleiri „yfirskilvitlega“ þætti trúarinnar með
hjálp sálarrannsókna og spíritisma.55
Á síðari hluta aldarinnar gætti sífellt meiri innhverfingar. Helgisiðum
kirkjunnar var breytt til hefðbundnara forms. Eins og fram er komið óx ný
sakramentisguðrækni fram. Áherslur í boðun kirkjunnar breyttust. Tekið
var að leggja áherslu á að orðræða trúarinnar væri annars eðlis en orðræða
vísindanna og ætti meira skylt við málfar bókmenntanna, ljóðsins eða
listarinnar.56
Nú um og eftir aldamótin 2000 gætir, eins og drepið var á, vaxandi
skerpingar. Sjálfsskilningur kirkjunnar nálgast það að vera sjálfsmynd hins
ofsótta píslarvotts, þess sem sótt er að og á undir högg að sækja.57 Spyrja
má hverjir gefi tóninn við mótun þessarar sjálfsmyndar. Er það hinn óbreytti
fjöldi innan þjóðkirkjunnar sem enn telur hátt í 80% þjóðarinnar eða er
þetta sjálfsmynd fámennrar elítu sem leitað hefur inn á við og jafnframt
aftur í tímann, þ.e. á vit hefðarinnar, með innhverfingunni sem varð á síðari
helmingi 20. aldar?
Það má einnig spyrja hvort trúarstofnun okkar, þjóðkirkjan, hafi gengið
til góðs í þessu efni sl. áratugi. Hvað hefur áunnist og hvað glatast?
55 Hjalti Hugason, 2012: 19-24, 30.
56 Gunnar Kristjánsson, 2000. Hjalti Hugason, 2012: 24-29.
57 Sjá Ragnar Gunnarsson, 2011: 19.
83