Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Side 98
Ó m a r Va l d i m a r s s o n
98 TMM 2013 · 4
Á bak við hreppsspítalann í Yomju var Rauði krossinn að koma fyrir
vatnstanki og setja inn vatnslagnir sem ekki höfðu verið teknar með í
reikninginn þegar spítalinn var byggður drjúgum áratug áður. Í bakgarð-
inum var stór hola, orðin að minnsta kosti fjögurra metra djúp. Þaðan bárust
taktbundin hróp og köll og svo flugu leirklumparnir upp. Ofan í holunni
stóðu fjórir menn í ökkladjúpu vatni, einn þeirra berfættur. Tveir voru með
skóflur, hinir tveir héldu á milli sín segldúk sem mokað var í. Svo töldu þeir:
einn … tveir … og þrír! … og fleygðu leirklumpunum upp með kröftugu
átaki og meiri hrópum og köllum. Þarna, og á mörgum fleiri stöðum sem
nutu góðs af verkefninu, höfðu menn verið að handmoka í marga mánuði.
Það var ekki vandamál, sagði yfirlæknirinn í Yomju, við getum auðveldlega
safnað fjögur þúsund manns til að grafa nokkurra kílómetra langa skurði
fyrir vatnslagnir.
Snilligáfa feðganna
Kvöldfréttirnar í ríkissjónvarpinu í Norður-Kóreu byrjuðu ævinlega á sama
hátt, með söng um goðsögulega eiginleika leiðtogans, Kim Jong-il, og fjallið
þar sem hann er sagður hafa fæðst, Paektu. Eftir lát hans í desember 2011
flutti ríkissjónvarpið fjölda frétta um yfirnáttúruleg fyrirbæri í berginu:
ísinn á stóru vatni klofnaði í tvennt, rauður bjarmi lýsti upp fjallið og tugir
skjóa höfðu safnast saman í tré, sameinaðir í sorg, að sögn embættismanns
sem sagði ríkissjónvarpinu í Pyongyang söguna og BBC sýndi daginn eftir.
„Það er ekki hægt að afgreiða þetta sem náttúrufyrirbrigði,“ sagði hann í
sjónvarpsviðtalinu. „Þetta sýnir að ekki aðeins þjóðir heims heldur einnig
dýrin geta ekki gleymt okkar kæra leiðtoga.“
Það er ekki alveg óþekkt fyrirbæri í kreddubundnum stjórnmálakerfum
að náttúrufyrirbrigði, raunveruleg eða ímynduð, séu notuð í pólitísku
skyni. Brian Myers, sem um árabil hefur fylgst vel með gangi mála í
alþýðulýðveldinu, sagði BBC við þetta tækifæri að það hefði verið hluti af
goðsagnagerðinni í bæði Japan keisaratímans og Þýskalandi nasismans að
land og kynstofn væru eitt og endurspegluðu eiginleika hvers annars (eins og
einnig var haldið fram hér á landi, til dæmis í Ímyndarskýrslunni frægu frá
2008 þar sem talsvert var lagt upp úr því að Íslendingar væru „yfirburðafólk“
sem land og náttúra hefðu mótað). Þá má vel ímynda sér að í Norður-Kóreu,
þar sem trúarbrögð eru útilokuð, geti hugmyndir af þessu tagi að einhverju
leyti uppfyllt þörf fólks fyrir trú á hið yfirnáttúrulega.
Snilligáfa Kim-feðganna á sér engar hliðstæður og þá er ekki aðeins
vísað til þeirra yfirburða sem juche-hugmyndafræðin er til marks um á
sviði stjórnvisku, heimspeki og stjórnmála. Þekkingu sinni og visku deila
Kim-feðgarnir svo með þjóð sinni með því sem mikið er gert úr þar eystra,
ráðgjöf á staðnum (on-the-spot guidance). Hvar sem þeir koma – hvort um
er að ræða kjarnorkurannsóknarstöð í Yongbyon, samyrkjubú í Kangwon,