Heilbrigðisskýrslur - 01.12.1966, Blaðsíða 152
1966
— 150 —
vegna morðs, er hann varð fyrrverandi konu sinni að bana 7. janúar
s.l. í íbúð hennar ....
Þ. er fæddur 11. maí 1928 að . .. ., sonur hjónanna S. A-sonar og
G. B-dóttur og einkabarn þeirra.
Föðurætt Þ. er úr Skagafirði og víst yfirleitt hraust. Vitað er þó
a. m. k. um einn einstakling náskyldan, sem var mjög sérstök persóna
og að mörgu einkennileg.
Móðurættin mun vera úr Húnavatnssýslu. í þeirri ætt, a. m. k. einni
grein hennar, mun þekkjast undarlegt fólk í viðbrögðum og a. m. k. eitt
tilfelli af geðveiki (Schizophreni) hjá náskyldum ættingja.
Þ. ólst upp til 6 ára aldurs að .... í Skagafirði, þar sem faðir hans
var með föður sínum og bræðrum að stórbúskap. Var þar stórt heimili
og sægur af börnum, og lætur Þ. mikið af því, hve dvölin þar hafi
verið ánægjuleg.
Þegar hann var 6 ára gamall, fluttu foreldrar hans til . ..., þar sem
faðir hans að nokkru rak verzlun og að nokkru stundaði bólstraraiðn.
Gekk Þ. þar í barna- og unglingaskóla. Heimildir um þessi ár eru frá
honum einum, og er á honum að skilja, að hann hafi verið eðlilegur
drengur, sem hafi átt góð og eingöngu góð samskipti við félaga sína og
annað umhverfi. Einbirni var hann, en telur ekki, að það hafi haft
nein áhrif á uppeldi sitt, og jafnvel þótt hann hafi notið nokkurs
eftirlætis, hafi hann ekki beðið neitt tjón af því.
Þ. er stúdent frá Menntaskóla Akureyrar 1949. Settist hann fyrst
í annan bekk að afloknu unglinganámi frá......Var hann þá við námið
norður á Akureyri á vetrum, en frá 1946 að sumarlagi í Reykjavík
Fram yfir gagnfræðapróf lætur hann af því, að námið hafi gengið
mjög vel, hafi hann meira að segja orðið efstur á gagnfræðaprófi. Tókst
honum það með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, og hafði hann enda tamið
sér það í náminu að sleppa eins „billega“ og hann komst af með.
I fjórða bekk (stærðfræðideild) segist hann hafa slegið talsvert
slöku við í trausti þess, að hann gæti jafnað það síðar, en í þetta skipti
tókst það ekki, og segist hann hafa búið að þessu alla skólatíð sína í
menntaskóla síðan og fékk svo aðra einkunn á stúdentsprófi.
Eitthvað mun Þ. hafa unnið jafnframt náminu í Kaupfélagi Eyfirð-
inga á Akureyri, og ber hann það stundum fram sem aðalástæðuna
fyrir takmörkuðum námsárangri, og stundum er hann opnari og segir
ósköp blátt áfram, að hann hafi slegið slöku við og goldið þess.
Lætur Þ. mikið af því, hve hann hafi átt góð samskipti við skóla-
félaga. Hafi hann verið vinmargur og samheldni t. d. milli bekkjar-
félaga einstök. Hafi tengsl haldizt innan þess hóps, eins og aðstæður
hafi frekar leyft, þegar frá leið.
Þessir hlutir koma fram í nokkuð öðru ljósi, þegar skólafélagar frá
þessum tíma segja frá. Þ. hafi verið „lítill feitur kubbur", þegar hann
kom fyrst í skólann. Hafi verið því líkast sem hann hafi löngum haft