Heilbrigðisskýrslur - 01.12.1966, Blaðsíða 178
1966
— 176 —
meira en í góðu hófi. Hafi hann átt til að vera býsna stórorður og þá
auðvitað sérstaklega undir áfengisáhrifum. Ekki hafi hann þó beint
orðið óvinsæll fyrir það, miklu frekar, að kunnugir skopuðust sín á
milli góðlátlega að gífuryrðum hans, en létu hann ekki gjalda þeirra
öðruvísi. Ýmsir höfðu á tilfinningunni, að honum þætti Flugfélagið
gæti alls ekki án hans verið, hann væri „ósnertanlegur“. Það mun þó
ekki hafa út af fyrir sig verið neitt einsdæmi um menn í hans stöðu.
Hins vegar gat hann átt til ýmis ómjúk ummæli um yfirboðara sína
í stjórn félagsins, ef hann var á öðru máli um einhverjar aðgerðir
þeirra, talaði þá enga tæpitungu, en hins vegar er ekki vitað til þess,
að nokkurn tíma hafi kastazt í kekki með þeim að neinu leyti. Hann
mun ekki, að því er bezt er vitað, hafa fengið neina áminningu vegna
framkomu eða vanrækslu í starfi eða í sambandi við það. Lætur hann
þess sérstaklega getið, að hann hafi gætt þess vandlega að fara ná-
kvæmlega eftir fyrirmælum um skemmsta tíma, sem megi líða frá
áfengisneyzlu og að flugi. Hins vegar er haft orð á því, að hann hafi
einatt þótt eiga það til að vera mjög hrjúfur í framkomu undir áfengis-
áhrifum, jafnvel misklíðargjarn, allt að því að örlað hafi á nokkrum
ofbeldistilhneigingum við þær aðstæður.
Tilvik þau, er særðu G. svo mjög, að hann gat alls ekki gleymt því
eða fyrirgefið, munu hafa verið þau, að það kom í ljós skv. flugæfinga-
töflu hjá Boeing-verksmiðjunum vestra, þar sem hann var við nám
og æfingar með öðrum íslendingum til undirbúnings komu þotu flug-
félags til Islands, að hann og annar flugmaður yrðu ekki búnir að
ljúka flugæfingunum sjálfum fyrr en 3 dögum eftir heimferð þotunnar
til Reykjavíkur, en búið hafði verið að ákveða af forráðamönnum F. 1.,
að G. flygi þotunni heim með yfirflugstjóra félagsins. Þótti þeim flug-
stjórunum tveimur þetta afar miklu miður og báru sig sáran upp
undan þessu við yfirmenn sína. Mun, að því er bezt er vitað, hafa verið
reynt til þrautar að flýta æfingum þeirra, svo að áætlanir F. I. fengju
staðizt, en Boeing ekki getað breytt sínum stundaskrám, sem væru
mjög viðamiklar og ásettar, enda væri slíkt aldrei gert. Hefði þá verið
kannaður sá möguleiki, hvort hægt væri að seinka heimkomu þotunnar
sem þessum dögum næmi. en bæði hefði móttökuundirbúningur verið
svo íastbundinn og enda áætlunarflug vélarinnar þegar frá áætluðum
heimkomudegi, að það var ekki tekið í mál, þótt bæði yfirflugstj óri og
enda J. heitinn G-son hefðu gert og reynt það, sem frekast var hægt
til þess að koma þessu í kring. Gekk þetta fyrir sig síðustu dagana, áður
en þotan átti að fljúga til Reykjavíkur. Þegar svo kom að því, að hún
átti að fara, og verið var að afhenda hana F. I. af hendi Boeing við
hátíðlega athöfn, komu þar tveir af eldri flugstjórum félagsins mikið
drukknir og heldur illa til reika og heimtuðu að fá að fara með heim.
Var þetta mjög áberandi og óþægilegt og hlýtur enda að hafa verið
það fyrir orðstír félagsins. Var þetta því látið eftir, til þess að sem