Hugur - 01.01.2018, Page 41
Til varnar hugsmíðahyggju 41
ósönn, heldur aðeins að það sem menn töldu sanna hana, gerir það ekki. Dýpstu
spurningum heimspekinnar, um samband hugar og heims og hvernig vitundin
tengist líkamanum, er enn ósvarað.
Hvað kemur þetta eigindlegum aðferðum við? Ég held að svarið sé í stuttu
máli að fyrir þá sem stunda rannsóknir er yfirleitt heppilegra að forðast forsendur
sem eru mjög umdeilanlegar. Það er því ekki ráðlegt, að minnsta kosti ekki að
nauðsynjalausu, að láta svo heita að forsendur rannsóknaraðferðanna séu hug-
smíðahyggja um allan veruleikann eða aðrar hugmyndir sem fela í sér stórar
frumspekikenningar á borð við hughyggju eða efnishyggju. Hugsum okkur að
einhver rannsaki til dæmis einelti í skóla og endi með niðurstöður sem gætu
hjálpað skólasamfélaginu að vinna gegn því. Ef aðferðafræði rannsóknarinnar er
kynnt eins og gildi hennar velti á mjög umdeilanlegum kenningum á sviði frum-
speki, er eins víst að það verði til þess að fólk, sem aðhyllist annars konar sýn á
heiminn, vilji síður nýta niðurstöðurnar. Að flagga umdeilanlegri forsendum en
þörf er á dregur þá úr notagildi rannsóknarinnar.
Félagslegur veruleiki
Hvað sem við kunnum annars að halda um frumspekileg efni, og hvort sem við
höllumst að hughyggju eða efnishyggju, hljótum við að greina milli félagslegs
veruleika og þess náttúrulega. Ég ætla ekki að halda því fram að skilin þarna á milli
séu alls staðar skörp. Fjölmörg hugtök sem við notum ná yfir samspil náttúrulegra
eiginleika og samfélagshátta. Sem dæmi um hugtök sem eru flókin með þeim
hætti má nefna barn, kyn og kynþátt. En mörk þess félagslega og þess náttúrulega
eru jafn raunveruleg þótt sum hugtök sem við notum dagsdaglega eigi ítök beggja
vegna. Landamæri eru til að mynda félagslegur veruleiki en ár og lækir eru nátt-
úrufyrirbæri. Ríki og landamæri milli þeirra eru ekki til nema fólk álíti þau vera
til og þau hætta að vera til um leið og fólk hættir að viðurkenna tilveru þeirra.
Einu sinni voru landamæri milli Austur-Þýskalands og Vestur-Þýskalands. Þau
eru þar ekki lengur. Þau hættu að vera til þegar fólk (í ákveðnum valdastöðum)
afréð að sameina Þýskaland. Eftir það voru girðingarnar bara girðingar en ekki
landamæri. Fyrir fáeinum öldum síðan voru engin landamæri milli Bandaríkj-
anna og Mexíkó. Þessi ríki voru ekki til. Landamærin urðu veruleiki vegna þess
að fólk viðurkenndi þau sem veruleika. Það þurfti ekkert annað til en yfirlýsingar
sem menn tóku mark á. Það er hins vegar ekki hægt að skapa ár og læki með því
einu að segja eitthvað og fá fólk til að taka mark á því, enda væri þá hægur vandi
að breyta eyðimörk í aldingarð.
Til að landamæri séu til þurfa þau að vera viðurkennd. Þetta jafngildir því ekki
að allir þurfi að samþykkja þau eða vera sáttir við tilveru þeirra. Fólk sem álítur
að betra væri að búa í heimi án landamæra viðurkennir samt að yfirvöld og þorri
fólks tekur mark á yfirlýsingum um hvar landamæri liggja. Við gerum okkur grein
fyrir að félagslegur veruleiki sem byggist á huglægri afstöðu er til, hvort sem við
teljum þá afstöðu sem um ræðir skynsamlega eða óskynsamlega.
Hugur 2018meðoverride.indd 41 24-Jul-18 12:21:22