Hugur - 01.01.2018, Síða 73
Hin póetíska rökræðusiðfræði 73
gjörðarmótsögn við yrðinguna, það að segja þetta sýnir að yrðingin er ekki sönn,
orð og æði stangast á. Hvað um þá sem einfaldlega hafna boðorðunum án raka?
Apel segir að vilji þeir ekki rökræða, þá geti þeir alls ekki spurt spurningarinnar
um hvort hægt er að ígrunda siðferðileg boðorð með skynsamlegum hætti. Sjálf
spurningin hefur rökfærslu að forsendu, menn verða t.d. að geta rökstutt að vit sé
í spurningunni. Að mati Apels sýnir þetta að sjálfdæmishyggja Ayers og félaga
sé sjálfsskæð.
Athugið að greining Apels er í formi ímyndaðrar rökræðu við þann sem er á
öndverðum meiði við rökræðusiðfræðinga. Hvað eftir annað reynir Apel að sýna
fram á að skoðun andstæðingsins í rökræðu leiði hann í gjörðarmótsagnir. Þannig
er hugsun Apels díalógísk í eðli sínu.
Apel heldur því fram að réttmæt siðaboð leiði hvorki röklega af staðreyndum
né öðrum boðorðum heldur megi uppgötva þau með forskilvitlegri greiningu á
boðskiptaferlinu. Slík greining felst m.a. í því að athuga hvort það að fylgja til-
teknu siðaboði leiði til gjörðarmótsagna. Leiði það til gjörðarmótsagna að fylgja
siðaboðinu, geti það ekki talist réttmætt. Að öðru leyti ákvarðist réttmæti siða-
boða í rökræðum manna.31
Siðferði manna sé í kjarna sínum boðskiptasiðferði, siðalögmálið sé ekki að
finna í hjörtum vorum heldur á tungum okkar. Með því einu að stunda boðskipti
væntum við og vísum til boðskiptasamfélags sem er í prinsippinu ótakmarkað
og fullkomið.32 Minnumst þess að samkvæmt (eldri) kokkabókum Habermas er
rökræðuþáttur byggður inn í boðskipti og rökræðuþátturinn vísar til frjálsrar og
óþvingaðrar samræðu. Slík samræða er nokkurn veginn það sama og hið full-
komna boðskiptasamfélag Apels. Munum líka að boðskipti eru málgjörðir eða
fall af þeim. Réttmætiskröfur sem byggðar eru inn í málgjörðir hafa siðferðilegan
þátt. Þessar kröfur eru rökstyðjanlegar og fallvaltar. Þær eru því skynsamlegar, í
ljósi þess má ætla að siðferðið hafi a.m.k. einhvern skynsemisþátt.
Innblásinn af Habermas beinir Apel sjónum sínum að málgjörðarspekinni og
greiningu hennar milli staðhæfingar- og gjörðarhluta málgjörða. Í samræðu geta
menn ekki látið sér nægja að setja fram raunhæfingar sem eru algerlega sneydd-
ar siðþætti. Jafnvel raunhæfingar hafa gjörðarhluta. Hann tengir þær, alla vega
óbeint, við boðskiptaathafnir sem hafa innbyggðar siðferðilegar kröfur á hendur
öllum meðlimum boðskiptasamfélagsins. Það að setja fram raunhæfingu í fullri
alvöru þýðir að maður hlýtur að vera tilbúinn til að verja sannleiksgildi hennar
gegn hverjum sem er, hvenær sem er, í fortíð, nútíð og framtíð. Í fullkomnu boð-
skiptasamfélagi ættu menn að geta ferðast í tíma til að verja raunhæfingar sínar
í frjálsri og óþvingaðri rökræðu við hvaða viðmælanda sem vera skal. En þetta
31 Hann telur sig slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar sýna fram á að það leiði til gjörðar-
mótsagna að hafna rökræðusiðfræðinni sem kenningu um siðferði, hins vegar að það leiði til
gjörðarmótsagna að fylgja ákveðnum siðaboðum.
32 T.d. Apel 1973c: 52–68. Þetta boðskiptasamfélag er nokkurn veginn það sama og kjörræðustaða
Habermas. Gagnstætt Habermas dró Apel þessa kenningu aldrei til baka. Vel má vera að hug-
myndin um kjörræðustöðu/boðskiptasamfélag sé nauðsynleg forsenda rökræðusiðfræði, þess
vegna eyddi ég allnokkru rými í að gera grein fyrir kenningunni um kjörræðustöðu þótt Haber-
mas hafi dregið hana til baka.
Hugur 2018meðoverride.indd 73 24-Jul-18 12:21:24