Hugur - 01.01.2018, Page 94
94 Jón Ásgeir Kalmansson
Það er meðal annars hér sem við getum séð í hvaða skilningi bók Coetzees er
ekki siðfræðirit í hefðbundinni merkingu þess orðs – þótt hún fjalli með mjög
athyglisverðum hætti um heimspekilegar og siðfræðilegar spurningar og verð-
skuldi því fyllilega að vera talin til slíkra rita. Þótt nútíma heimspekingar á borð
við Mary Midgley, Tom Regan og Peter Singer hafni skynsemishyggju klassískra
heimspekinga og færi rök fyrir beinum skyldum manna við dýr, þá er orðræða
þeirra af sama meiði og fyrirrennara þeirra. Hún er rökræða um „hvers kyns sál-
ir dýr hafa“ og svo framvegis. Þótt Costello segist munu „grípa til hennar um
stund“,22 kannski vegna þess hve áhrifamikil hún er, þá vill hún samt „streitast á
móti þar sem ég sé fyrir mér að með því skrefi gæfi ég eftir alla baráttuna“.23
Ástæða er til að staldra hér við um stund og spyrja hvers vegna Costello er svo
í nöp, ekki aðeins við „dýrasiðfræði“ Aristótelesar og Descartes, heldur einnig
þeirra Mary Midgley og Toms Regan, sem eru þrátt fyrir allt einhverjir einörð-
ustu talsmenn dýraréttinda í heiminum nú á dögum? Hvers vegna er hætta á því
að maður gefi eftir alla baráttuna fyrir hönd dýranna ef maður notar hina hefð-
bundnu orðræðu heimspekinnar? Er sú aðferð heimspekinnar að spyrja um rök
og ástæður, skilgreina hugtök, og draga ályktanir virkilega svona slæm? Og hvað
er eftir ef við höfnum skynseminni annað en geðþótti og stjórnleysi?
Til að svara þessum spurningum er nauðsynlegt að átta sig á því að þótt Costello
gagnrýni harðlega skynsemina í mynd „heimspekilegrar orðræðu“ frá Aristótelesi
til heimspekinga okkar daga, þá boðar hún ekki andskynsemi eða geðþótta sem
andsvar. Ein aukapersóna sögunnar, Elaine Marx, bendir Costello á að gagnrýni
hennar á heimspekilega orðræðu um dýr feli í raun í sér trú á skynsemina: „Samt
sem áður segir einmitt sú staðreynd að þú getur fært rök gegn þessu, opinberað
hvað er rangt við þetta, að þú setur ákveðið traust á mátt skynseminnar, sannrar
skynsemi sem andstæðu falskrar skynsemi.“24 Costello hafnar þessu aldrei, enda
myndi margt í máli hennar falla um sjálft sig ef hún gerði það. Costello segir að
bæði „skynsemi og sjö áratuga lífsreynsla“ segi sér að skynsemin sé hvorki eðli al-
heimsins né eðli Guðs. Hún segir að ef vera, sem er skynseminni ókunnug, horfir
á hana utan frá, afhjúpist skynsemin sem feiknamikil klifun. Hún ber „fábrotið
svið hagnýtrar [tæknilegrar] skynsemi“ saman við miklu athyglisverðari tegund
hugsunar, það er að segja „hreinar hugleiðingar“ um gerð og réttlæti heimsins, og
um spurningar eins og „Hvar er heima og hvernig kemst ég þangað?“25 Öll gagn-
rýni hennar byggist með öðrum orðum á því að hægt sé að nálgast veruleikann
frá víðari sjóndeildarhring skynjunar og hugsunar en viðteknar hugmyndir um
skynsemi og rök leyfa. Viðleitni hennar beinist að því að fá áheyrendur sína til
að opna huga sinn fyrir öðrum víddum en einungis hinni röklegu og tæknilegu.
Með því auðnaðist þeim að sjá skynsemi, í þröngum skilningi þess orðs, ekki sem
22 Sama rit: 22.
23 Sama rit: 25.
24 Sama rit: 55.
25 Sama rit: 29–30. Costello segir að öll dýr sem lokuð eru „inni í helvíti rannsóknastofunnar eða
dýragarðsins“ séu upptekin af þessari spurningu. Til íhugunar má geta þess að samskonar spurn-
ing – um hvar og hvernig maður geti fundið sig heima á jörðinni – hefur af ýmsum verið talin
driffjöður heimspekiiðkunar.
Hugur 2018meðoverride.indd 94 24-Jul-18 12:21:26