Andvari - 01.01.2018, Síða 70
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
Sjálfbært fólk?
Um hag- og vistkerfi Sumarhúsa
Skáldsagan Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er meðal þeirra skáldverka
íslenskrar bókmenntasögu sem mest hefur verið fjallað um af fræðimönnum
og raunar ekki bara fræðimönnum, sagan stendur eins og viðmið í íslenskri
þjóðmálaumræðu, persónur hennar, ekki síst aðalpersónan, hafa orðið hold-
tekja ólíkra og stundum gagnstæðra hugmynda. Þetta kom ágætlega í ljós
þegar Þorleifur Örn Arnarsson setti upp leikgerð sögunnar í Þjóðleikhúsinu
veturinn 2014–15. Bæði í yfirlýsingum höfunda þeirrar sýningar og í um-
ræðum um hana kom í ljós að sagan hefur vissulega stöðu sem viðmið og
jafnvel helgimynd í íslenskri menningarsögu, en það virtist skipta ansi miklu
máli frá hvaða sjónarhorni menn horfðu á þá helgimynd. Þannig mátti skilja
á aðstandendum sýningarinnar að Bjartur sjálfur hefði sess hetju í huga
flestra og að viðhorf Íslendinga til sögupersónunnar einkenndust af ómeng-
aðri aðdáun og samsömun. Sú skoðun kemur illa heim og saman við skrif
fræðimanna um söguna hingað til, hvað sem öðru líður.1
Sjálfstætt fólk er líka lykilverk af því tagi sem sífellt er hægt að greina
og túlka í samhengi við nýja tíma og nýjar hræringar í bókmenntafræði
og skyldum greinum. Frá því að bókin kom út um miðjan fjórða áratuginn
hefur hún verið túlkuð í ljósi kenninga um raunsæi, marxisma, hugmynda-
fræðirýni, sálgreiningu, viðtökufræði, femínisma og afbyggingu svo nokkur
dæmi séu nefnd. Þá hefur hún að sjálfsögðu verið viðfangsefni þeirra sem
fást við bókmenntasögu frá ýmsum sjónarhornum. Í þessari grein verður
fjallað um söguna út frá vistrýni, þótt hugtök af marxískum toga komi hér
einnig við sögu.
Eins og ráða má af titli greinarinnar er hér ætlunin að huga að því hvort
sjálfbærnihugtakið geti varpað nýju ljósi á söguna. Það getur verið umdeil-
anlegt að hlaupa til í hvert skipti sem ný stefna í fræðunum kemur fram og
máta hana við sígild verk sem hafa verið greind í þaula með eldri aðferðum.
Í tilfelli vistrýninnar og Sjálfstæðs fólks er þó óþarfi að hafa slíkar áhyggjur.
Á ritunartíma sögunnar á fjórða áratugnum var samband manns og náttúru
eitt af meginviðfangsefnum rithöfunda, listamanna og heimspekinga í öllum
hinum vestræna heimi. Í norrænu og íslensku samhengi var þetta sérstaklega