Saga - 2021, Page 26
lifandi miklu frekar en tíminn, þessi „gluggi“ gæti allt eins þjappað
saman mörgum skiptum sem ég var í eldhúsinu með ömmu —
öfugt við það sem ætla má eru minningar frekar tengdar stað en
tíma.
Staðir geta líka kallað fram minningar sem annars hefðu ekki
leitað á hugann. Að sækja stað heim, segjum æskuslóðir sem langt
er síðan maður hefur komið á, virkjar minningar um fólk og atburði.
Þær geta eftir atvikum verið sárar eða ljúfar en þær marka sýn okkar
og skilning á staðnum um leið og staðurinn gefur minningunum
form. Margir sem búa yfir þungbærri reynslu kannast við djúpstæða
ónotatilfinningu þegar vettvangur reynslunnar er sóttur heim.8 Það
getur verið djúpt á minningunni, hún bundin persónulegri reynslu
sem maður hefur ekki deilt með öðrum en skýtur svo formálalaust
upp kollinum þegar staðurinn minnir okkar á. Hugrenningatengsl
verða við að koma inn í herbergi, sjá einhvern hlut eða finna aftur
einhverja lykt sem við héldum að við hefðum löngu gleymt. Stund -
um getur slík persónuleg minning haft stuðning af áþekkri reynslu
annarra og tekið á sig skýrari mynd við samtal. Að minnast með
fjölskyldu eða vinum getur skerpt minninguna — og líka breytt
henni því sjaldnast muna tveir það sama á alveg sama hátt. Merking
staðar getur líka verið laustengdari manns eigin persónulegu reynslu,
byggð á frásögn annarra sem metið hafa gildi atburðarins, fyrirbæris -
ins eða fólksins fyrir samfélag þeirra sem eiga að minnast eða vilja
muna. En minningin verður ekki sérlega lifandi nema hún snerti
okkur persónulega á einhvern hátt, þegar við getum tengt hana á
einhvern hátt því sem við skynjum sem okkar og samrýmt hana
sjálfsmynd eða hversdagslegri reynslu okkar. Persónulega minnið
og menningarlega minnið er ekki að fullu aðgreinanlegt.
Í daglegu tali er oft talað um minningar líkt og um hluti væri að
ræða. Talað er um að eiga góðar minningar eða slæmar rétt eins og
einstaklingurinn geti við hentugleika dregið þær upp úr pússi sínu
og handleikið þær: yljað sér við þær góðu, horfst í augu við þær
slæmu. Þetta rímar vissulega við reynslu margra en dregur fjöður
yfir þá margháttuðu úrvinnslu sem á sér stað þegar við minnumst.
Minningar fólks eru auðvitað alla jafna háðar málsatvikum, þeim
atburðum, fyrirbærum og fólki sem minnst er sem og upphaflegri
reynslu einstaklingsins sem minnist. En auk úrvinnslunnar sem á
sér stað á vettvangi reynslunnar geta ýmsir aðrir þættir haft áhrif á
álitamál24
8 Vera Knútsdóttir, „Reimleikar í Reykjavík,“ 113–118.