Saga - 2021, Page 28
vallar. Þunginn hefur verið á að ræða ætlan hönnuðanna eða þeirra
sem stóðu að því að reisa minnisvarðann, hvernig kosið er að hampa
tilteknum körlum, atburðum, gildum og svo framvegis. Grein ing -
unni og gagnrýninni er beint að því hvernig minningar eru mótaðar
í valdasamhengi eða hvernig ráðamenn hafa ráðskast með sjálfs-
mynd og söguskilning fólks, hvernig tilteknir einstaklingar og
hópar hafa gerst talsmenn eða bakhjarlar menningarlegs minnis (og
með því öðlast hlutdeild í minningu stórmenna og mikilvægra
atburða). Slíkar rannsóknir hafa ekkert sérstaklega beint sjónum að
viðtakendunum, því hefur einfaldlega verið slegið föstu að merk-
ingarrammi minnisvarðans finni (eða hafi fundið á þeim tíma sem
hann var reistur) samhljóm í veraldarsýn þeirra sem boðskap hans
var beint til og að minningastaðurinn eða minnisvarðinn miðli (eða
hafi miðlað) tilteknum félagslegum minningum og gildum til
viðtakendanna og orðið til að treysta tiltekið gildismat, söguvitund
og sjálfsmynd borgaranna.
Í þessu er ekki nægjanlega tekið tillit til þeirra ferla sem gefa efn-
isveruleika merkingu. Merking staðar sprettur vissulega af þeim
sögum sem um hann eru sagðar, hugmyndafræði og tilteknum
minningum. Um minningastaði verður þannig til orðræða sem
heldur tiltekinni sögu á lofti. Hún getur verið býsna lífseig enda
virðist hún jafnan fá staðfestingu í efnislegri birtingarmynd staðar-
ins. En einmitt af sömu ástæðu er merking staða alltaf opin fyrir rofi.
Landfræðingurinn Tim Cresswell talar um hvernig ólíkar frásagnir
berjist um athygli þó að á hverjum tíma séu ákveðnar frásagnir sem
hafa yfirburðastöðu í orðræðu um staðinn. Stöðunum fylgja líka
sögur, bendir Cresswell á, sem fennir yfir eða eru þaggaðar en geta
síðan skotið upp kollinum þegar staðurinn er settur í nýtt sam-
hengi.10
Það er þetta sem gerist þegar hópur fólks nær saman um nýja
merkingu og gamlar minningar ryðjast fram á sviðið. Uppgötvun
eða atburður kallar fram þaggaðar raddir sem hægfara hugarfars-
breytingar hafa ekki náð að gefa styrkan hljóm. Skyndilega skapast
tækifæri til að minnast félagslega þar sem enginn opinber (eða jafn-
vel persónulegur) vettvangur var áður, minningar fá farveg í sam-
félagslegri samræðu og frásögn. Uppgötvun fjöldagrafa við skóla
barna frumbyggja í Kanada sem skikkuð höfðu verið á heimavist
álitamál26
10 Tim Cresswell, „Place,“ The Sage Handbook of Human Geography, 1. bindi. Ritstj.
Roger Lee o.fl. (Los Angeles: Sage, 2014), 3–21, hér 16.