Saga - 2021, Page 32
fara og hamfara heldur tilheyra þær hringlaga tímahringrás lífs og
dauða. Í praxís þýðir þetta að á meðan reistar séu styttur af alklædd-
um nafngreindum körlum séu styttur af konum yfirleitt allsnaktar
og nafnlausar.6 Jafnvel þó að reistar séu styttur af nafntoguðum
konum er ekki þar með sagt að þær séu alltaf fullklæddar. Skemmst
er að minnast styttunnar af kvenréttindakonunni Mary Wollstone -
craft sem var afhjúpuð í Newington Green í London árið 2020 en þar
stendur nakin Wollstonecraft ofan á stalli sem á að vísa í líkamsform
kvenna. Ástæðan sem gefin var fyrir nekt Wollstonecraft var sú að
listamaðurinn taldi ljóst að nútímakonur gætu ekki samsvarað sig
konu sem væri klædd í slíkt hallærisdress sem kvenbúningar átjándu
aldar voru. Þetta eru áhugaverð rök sem gjarnan mætti beita í víðara
samhengi og spyrja hvort ekki gildi það sama um íburðarmikla
skraut búninga kónga og aðalsmanna á styttum víða um heim.7
Þó svo að konur séu sjaldan eða ekki túlkaðar sem gerendur í
gegnum minnisvarða í almannarými eru þær þó ekki undanþegnar
pólitíkinni. Kvenímyndir má (mis)nota á ýmsan hátt þar sem sögu-
leysi og staðalímyndir skapa einmitt rými til að búa til táknmyndir
sem eiga að undirbyggja ákveðna pólitíska söguskoðun.8 Hér verður
stuttlega rakið eitt slíkt dæmi frá meginlandi Evrópu.
Mýtan um rústakonurnar
Flest þekkjum við myndir frá rústum þriðja ríkisins. Myndefni af
borgum sem loftárásir bandamanna lögðu í rúst lýsa vel ástandinu
í hinum gjörsigruðu öxulveldum. Hvernig byrjar man svo að rétta
af þjóðfélag eftir svona hildarleik? Jú, það þarf að lofta út og taka til.
álitamál30
6 Sylvia Paletschek og Sylvia Schraut, „Gender and Memory Culture in Europe –
female representation in historical perspective,“ í Gender and Memory. Cultures
of Remembrance in Nineteenth and Twentieth-Century Europe, ritstj. Sylvia
Paletschek og Sylvia Schraut (Frankfurt/New york: Campus Verlag, 2008), 7–
28, hér 25.
7 Vef. Alexandra Topping, „Insulting to her: Mary Wollstonecraft sculpture sparks
backlash,“ The Guardian, 10. nóvember 2020, sótt 8. ágúst 2021. Viðbrögð mynd-
höggvarans Maggi Hambling, höfundar verksins, má sjá í viðtali við Evening
Standard: Vef. Robert Dex, „Artist Maggi Hambling says critics of Mary
Wollstonecraft sculpture ‘missed the point´,“ Evening Standard, 11. nóvember
2020, sótt 8. ágúst 2021.
8 Sylvia Paletschek og Sylvia Schraut, „Gender and Memory Culture in Europe,“
26.