Saga - 2021, Page 33
Hugtakið Trümmerfrau, eða rústakona, vísar til þeirra tugþús unda
kvenna sem lögðust á eitt við að hreinsa stræti og götur þýskra
borga og bæja eftir stríðslok þannig að hægt væri að koma innvið -
um aftur í samt lag og þar með leggja grunn að enduruppbyggingu
Þýskalands.
Rústakonan var vinsælt blaðaefni. Myndir af vöskum (og oftast
ungum) konum sem gengu rösklega til verks með bros á vör, eins
konar vorkonur hins nýja Þýskalands, prýddu síður hinna nýju
þýsku blaða sem og annarra evrópskra fjölmiðla. Myndirnar föng -
uðu vel andstæður stríðsins. Brosandi konur með æskuglampa í
augum úti á götum að búa í haginn fyrir framtíðina í eyðilegu borgar -
landslagi mörkuðu af sprengjuregni.
Rústakonan var einnig hentug ímynd fyrir ríki sem var í þann
mund að gangast við einum verstu stríðsglæpum mannkynssög-
unnar. Með rústakonunum var hægt að taka þræði úr ímynd Þýska -
lands nasismans á borð við seiglu, þrautseigju og samheldni og vefa
nýjan söguþráð í formi konu, saklausrar húsmóður eða ungrar
stúlku sem beið af sér hildarleikinn heima fyrir og var nú tilbúin að
leggja sitt af mörkum til að byggja upp réttlátara samfélag. Þarna
var því brugðið á það útþvælda ráð að kalla fram ímynd hinnar sak-
lausu konu til að skapa annan söguþráð sem leit fram hjá hinum
raunverulegu fórnarlömbum stríðsins og skekkti alla umræðu um
sekt og ábyrgð.
Þessi ímynd var söluvæn. Hún gaf hinni sigruðu þjóð örlítið
sameiningartákn, hugrenningatengsl frá stríðsárunum sem hægt var
að vísa í án þess að fara í keng yfir stríðsglæpum, útrýmingarbúðum
og gasklefum. Minnisvarðar um rústakonurnar voru reistir í mörg-
um borgum og stjórnmálamenn voru ósparir á að vísa til þeirra í
ræðu og riti.9 En þrátt fyrir að myndirnar hafi talað sínu máli var
margt á huldu um þessar konur, hverjar voru þær eiginlega?
Sagnfræðingurinn Leonie Treber rannsakaði rústakonurnar í
doktorsritgerð sinni frá 2005. Hún komst að þeirri niðurstöðu að
rústakonurnar voru eiginlega ekki til. Og alls ekki í þeirri mynd sem
stjórnvöld og almenningur sögðu frá.10
söguskoðun í almannarými 31
9 Vef. Nicole Kramer, „Trümmerfrauen,“ Historisches Lexikon Bayerns, ritstj.
Matthias Bader, sótt 8. ágúst 2021.
10 Leonie Treber, Mythos Trümmerfrauen. Von der Trümmerbeseitigung in der Kriegs-
und Nachkriegszeit und der Entstehung eines deutschen Erinnerungsortes (Essen:
Klartext Verlag, 2014).