Saga - 2021, Page 103
Fjölmiðlar áttu stóran þátt í að veikja stigveldi íslenska sveita-
samfélagsins og stækka almannarýmið. Uppgangur þeirra þrengdi
að menningarlegu forræði presta og annarra ráðandi manna í nær-
samfélögunum og gerði það að verkum að torveldara varð fyrir
ráðamenn að stýra upplýsingum. Á síðum blaða var erfiðara en í
samtölum eða á fundum að beita sterkri samfélagslegri stöðu gegn
andófi og andstæðum skoðunum og nýta tæki stigveldisins til að
láta „lægra setta“ þekkja sinn sess og sitja á sér.
Í þessari grein verður skýrt hvaða áhrif ríkjandi siðferðisviðmið
höfðu á íslenskt samfélag um aldamótin 1900, hvernig þeim við -
mið um var beitt til að viðhalda samfélagsgerðinni og hvað orsakaði
að fjara tók undan þeim. Hér verður stuðst við notkun Pierres
Bourdieu á hugtakinu doxa. Til hliðsjónar er einnig höfð greining
Vilhelms Vilhelmssonar á áhrifum siðrænnar ögunar í íslensku
samfélagi nítjándu aldar. Síðari helmingur greinarinnar byggir á
greiningu á frumheimildum sem lýsa siðferðisviðmiðum á rann-
sóknartímanum. Í doktorsritgerð minni setti ég fram hugtakið dyggða -
samfélag um ríkjandi siðferðisviðmið nítjándu aldar sem byggðu á
lútersku stig veldi.17 Íslenskt samfélag var dyggðasamfélag sem
grund vallaðist á sterku doxa fram á síðasta fjórðung nítjándu aldar,
sveitasamfélag sem hafði til þess tíma breyst hægt frá byrjun aldar-
innar hvort sem litið er til stjórnsýslu, atvinnuhátta, menntunar eða
menningar.
Doxa
Eitt þeirra fræðilegu hugtaka sem franski félagsfræðingurinn Pierre
Bourdieu (1930–2002) beitti í rannsóknum sínum nefnist doxa.
Bourdieu fór að nota þetta hugtak snemma á fræðaferli sínum á
meðan hann rannsakaði samfélög í Alsír og Béarn í Suðvestur-
Frakklandi. Þetta voru forkapítalísk samfélög sem einkenndust af
heildarhyggju og áherslu á dyggðir þar sem ein sú helsta var að fólk
gaf það besta sem það átti frekar en að selja það. Táknrænt auðmagn
viðhélst, óx eða dróst saman eftir því hversu vel fólk fylgdi „sam-
skiptareglum“ samfélagsins. Gjafmildi, heiður og viðurkenndar
dyggðir skiptu fólk meira máli en fjárhagsleg afkoma.18
íslenska dyggðasamfélagið 101
17 Lbs. – Hbs. Hrafnkell Lárusson, „Lýðræði í mótun,“ 133–139.
18 Michael Grenfell, „Interest,“ í Pierre Bourdieu: Key Concepts, 2. útgáfa, ritstj.
Michael Grenfell (London og New york: Routledge, 2012), 151–168, hér 155.