Saga - 2021, Blaðsíða 116
hluti bréfs Stefáns fer í að ræða um þann mun sem hann áleit vera á
kirkju og kristindómi í aldamótasamfélaginu gagnvart því sem áður
var — og virðist hann þar vísa einkum til miðbiks nítjándu aldar.
Fyrrum hafi hver álitið það skyldu sína að sækja kirkju á hverjum
messudegi og Biblían „myglaði ekki á hillunni þá sem nú tíðkast“.
Kirkjan var þá heilög og guðsorð óhrekjandi. Stefán taldi samtíma-
fólk aðeins fara til kirkju sér til gamans þegar gott væri umferðar og
væri gálaust í tali um það sem væri heilagt. Stefán vildi þó ekki
meina að öllu hefði hrakað því kærleiksverk væru mun tíðari en
áður og þau endurspegluðu kristilegt hugarfar. Ástæðan fyrir hnign -
un trúariðkunar var skýr að mati hans:
Alþýðumenntunin sem sífellt eykst gerir þar mest að verkum því
mönnum finnst eigi samrýmanleg Biflían og vísindaleg reynsla. En
mun það eigi stafa af því að menntunin er eigi fullnægjandi? Ég álít að
menntunin auki efann, af því hún er ekki byggð á réttum grundvelli.
Þó leitt sé að trúa því, þá hygg ég samt, að menntunarfýsnin, sem nú er
efst í öllum, spilli trúarlífinu, en auki vantrúna.56
Stefán áleit kristna trú grundvöll siðferðis og samfélagsgerðar og
helsta ógnin sem hann sá við hvort tveggja var menntaþrá almenn-
ings. Hún naut óbeins stuðnings af útbreiddri framfaratrú og vax-
andi veraldarhyggju þessa tíma og einnig af uppgangi félagastarfs,
ekki síst útbreiðslu lestrarfélaga, sem og tilkomu alþýðlegra ung-
mennaskóla.57
Í bréfaskiptum bræðranna Gísla (1881–1964) og Indriða (1882–
1976) Helgasona frá Skógargerði í Fellum á Fljótsdalshéraði við for-
eldra sína, Ólöfu Helgadóttur (1853–1919) og Helga Indriðason
(1855–1904), upp úr aldamótunum 1900 má sjá dæmi um togstreitu
milli ólíkra lífsviðhorfa. Ólöf reyndi ítrekað í bréfum til Indriða að
tala hann ofan af þeirri skynsemistrú sem hann aðhylltist og leiða
hann til Krists en sjálf var Ólöf mjög trúuð.58 Af bréfum sem gengu
milli barna hennar að dæma virðist áköf trú Ólafar hafa átt þátt í að
gera sambúð hennar og Gísla erfiða eftir að Helgi féll frá árið 1904.
Helgi og Ólöf höfðu áhyggjur af því að Gísli væri að ganga af trúnni
meðan hann var við nám í Möðruvallaskóla (1900–1902) og tókust
hrafnkell lárusson114
56 HerAust. A6 197, 12. Bréfasafn Einars Jónssonar prests í Kirkjubæ, á Hofi og
víðar. Bréf frá Stefáni Árnasyni til Einars Jónssonar, dags. 6. janúar 1900.
57 Lbs. – Hbs. Hrafnkell Lárusson, „Lýðræði í mótun,“ 123–133, 133–139.
58 HerAust. A6 183, 20. Bréfasafn Gísla Helgasonar frá Skógargerði. Bréf Ólafar
Helgadóttur til Indriða Helgasonar, dags. 19. nóvember 1904.