Saga - 2021, Page 119
engu vildi breyta. Bjarni Jónsson var upprunninn á Fljóts dalshéraði
en var um það leyti sem rit hans kom út að flytjast búferlum til
Reykjavíkur. Þar bjó hann upp frá því ef frá eru talin nokkur ár í
Hafnarfirði og á Suðurnesjum. Bjarni starfaði einkum við kennslu og
ritstjórn en var auk þess um árabil meðhjálpari í Dómkirkjunni og
framámaður í kristilegu félags- og útgáfustarfi. Hann var einlægur
bindindismaður og starfaði á yngri árum í Góðtemplara regl unni.63
Jón Bjarnason (1845–1914) var þekktur fyrir kjarnyrtar skoðanir
og í því riti sem hér um ræðir talaði hann enga tæpitungu. Mál sitt
hóf hann á að ræða gróðureyðingu á Íslandi, einkum skógareyð -
ingu, sem olli honum áhyggjum. Sýnu meiri voru þó áhyggjur Jóns
af siðferðislegri afturför landsmanna og „andlegum uppblæstri“
sem hann taldi að ætti sér stað og hann skammaði landsmenn fyrir
skort á þrautseigju. Ekki við að bera „gamla óstjórnarhlekki“ heldur
við að berjast fyrir frelsi sínu og hlúa að andlegum framförum. Jón
sagði fólk almennt viðurkenna að „dyggðirnar sé að dvína, landið
sé andlega að blása upp“ og til að það dafnaði yrði að „drepa niðr
illgresi hviklyndisins, óáreiðanleikans og eigingirninnar í karakter
þjóðarinnar“.64 Hnignunareinkennin sem blöstu við Jóni voru þekktir
lestir, andstæður samfélagslegs trausts og heildarhyggju. Lausnin
sem Jón sá við hnignun dyggða var efling trúar en hann kvartaði
yfir því að það fylgdi „nýja stílnum“ á Íslandi að hafa horn í síðu
kristninnar. Jón skellti skuldinni af þessu „dauðsjúka ástandi“ sið -
ferðis í landinu á íslensku þjóðkirkjuna sem hann beindi ítrekað
gagnrýni að og taldi meginorsök vaxandi vantrúar og trúleysis í
landinu.65 Þótt skrif Jóns í þessu riti væru í hefðbundnum heims -
ósómastíl voru þau á ýmsan hátt mótsagnakennd og boðuðu ekki
algjört afturhvarf þó að Jón liti til viðurkenndra dyggða og doxa
sveitasamfélagsins sem uppsprettu úrbóta. Þótt margt í breyttri
samfélagsgerð væri Jóni ekki að skapi, til dæmis vaxandi blaða-
útgáfa, þá brýndi hann landsmenn til dáða í baráttu fyrir auknum
lýðréttindum en í því fólst ákall um aukið einstaklingsfrelsi til
handa almenningi.
íslenska dyggðasamfélagið 117
63 Bj[arni] Eyjólfsson, „Bjarni Jónsson: Minning“, Bjarmi (24. febrúar 1951): 3; J.H.
[Jón Helgason], „Bjarni Jónsson kennari“, Heimilisblaðið (mars–apríl 1951): 43–44.
64 Jón Bjarnason, Ísland að blása upp (Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymunds -
sonar, 1888), 26. Rit Jóns er prentuð útgáfa erindis sem hann flutti í Mountain
(Dakota) í Bandaríkjunum þann 26. júní 1888. Leturbreyting í heimild.
65 Jón Bjarnason, Ísland að blása upp, 27–28.