Saga - 2021, Side 133
finningar? Sigurður Gylfi Magnússon telur að tilgangur dagbókar-
skrifa sé í flestum tilfellum sáraeinfaldur og heiðarlegur, „það er að
koma vissu skipulagi á lífið og líðandi stund“.18 Höfundur setji sig
sjaldan í sérstakar stellingar til að tjá skoðanir sínar því dagbókin sé
fyrst og fremst skrifuð fyrir höfundinn sjálfan. Dagbækur Hann esar
hefjast sem nokkurs konar skráningarbækur, þróast og verða nokkuð
efnismiklar. Þannig má segja að þær endurspegli þá almennu þróun
sem verður á dagbókarskrifum en Davíð Ólafsson hefur sýnt fram
á að dagbækur hafi um miðja nítjándu öld farið að þróast úr stuttum
færslum um veður, árferði og atburði í nánasta umhverfi dagbóka-
ritara yfir í lengri færslur þar sem persóna dagbókaritarans verður
æ fyrirferðarmeiri.19 Sjálfur veltir Hannes fyrir sér tilgangi dagbókar -
skrifa sinna og segir:
Mjer er farið að verða nokkuð skrafdrjúgt í þessari dagbók minni.
Upprunalega var það ætlunin, að skrifa aðeins niður mjer til minnis og
gamans ýmislegt, er snerti gróður og nokkuð það, er hann snertir, sjer-
staklega í garðinum. En smátt og smátt hefir þetta verkefni færst alveg
ósjálfrátt út og jeg farið að skrifa laust og fast um það, sem fyrir mig
hefir borið eða mjer dottið í hug í þann og þann svipinn. Alt er það
skrifað í flýti og ekki fyrri en á kvöldin, rjett áður en jeg hefi gengið til
rekkju, enda aðeins gjört fyrir sjálfan mig, til þess síðar meir, ef mjer
endist aldur, að ryfja ýmislegt upp fyrir mjer. Aðrir geta hvorki haft
gagn nje gaman af, að lesa það.20
Í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru
varðveittar dagbækur að minnsta kosti 180 einstaklinga.21 Þessar
dagbækur eru eins misjafnar og þær eru margar, ritaðar af fólki úr
ólíkum þjóðfélagshópum og spanna tímabilið allt frá fyrri hluta átj-
ándu aldar og fram eftir þeirri tuttugustu. Dagbók Hannesar er
merkileg viðbót í þá flóru dagbóka sem varðveist hefur. Nægir þar
„mjer er farið að verða … skrafdrjúgt“ 131
18 Sigurður Gylfi Magnússon, Fortíðardraumar. Sjálfsbókmenntir á Íslandi (Reykja -
vík: Háskólaútgáfan, 2004), 148, sjá jafnframt 145–150.
19 Davíð Ólafsson, „Að skrá sína eigin tilveru. Dagbækur, sjálfsmynd og heims-
mynd á 18. og 19. öld,“ í Einsagan – ólíkar leiðir. Átta ritgerðir og eitt myndlistar-
verk, ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon (Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 1998), 51–88.
20 Lbs. Lbs. 365 NF. Hannes Thorsteinson, dagbók 9. nóvember 1918.
21 Davíð Ólafsson, „Dagbækur í handritadeild Landsbókasafns,“ Ritmennt 3
(1998): 109–191, hér 110. Að auki eru varðveittar fjölmargar dagbækur í hinum
ýmsu einkaskjalasöfnum í handritasafni. Þá eru hér ótaldar þær dagbækur
sem bæst hafa við safnkostinn eftir að grein Davíðs kom út.