Saga - 2021, Side 209
standa fyrir um aldamótin 1900. Rannsóknin átti rætur í svonefndu húsbótar -
máli sem varð til vegna háværrar kröfu framfarasinnaðra Íslendinga um að
breyta þyrfti ríkjandi híbýlamenningu hérlendis en þorri landsbyggðarfólks
bjó á þessum tíma í torfbæjum. Þótti þeim híbýlin standa í vegi fyrir hvers
kyns framförum í íslensku samfélagi. Náði þessi umræða að lokum inn á
Alþingi og húsbótarmálið varð til — eða húsbótin eins og málið var nefnt í
þinginu.
Aðdragandi byggingarrannsóknarinnar var í stuttu máli sá að Alþingi
veitti Búnaðarfélagi Íslands framlag, samtals 6.000 krónur árin 1900 og 1901,
til þess að standa að rannsókn á þeim byggingarefnum sem þá voru notuð
í landinu og að vinna leiðbeiningar við húsagerð. Búnaðarfélagið réð Sigurð
Pjetursson til verksins snemma árs 1900 en hann hafði þá nýlokið námi í
verkfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Sigurður hagaði starfi sínu þannig
að hann sendi öllum sýslunefndum í landinu lista með tíu spurningum um
híbýlahætti í hreppum innan þeirra umdæmis auk þess sem spurt var um
ýmis atriði þeim tengdum, svo sem þykkt jarðlaga, notagildi jarðefna, end-
ingu húsa, viðgerðir og eldivið, en svörin hugðist hann nýta sem grunn fyrir
rannsóknina. Svör bárust frá nær öllum sýslunefndum landsins. Þau voru
hins vegar aldrei nýtt frekar því rannsóknin tók óvænta stefnu og hafa
svörin legið svo að segja ólesin allt til þessa þrátt fyrir umsvifamiklar rann-
sóknir á torfbæjum, kostum þeirra og göllum, ekki síst á síðari tímum.
Allmörg svör eru birt hér í fyrsta sinn í einni heild í ritröðinni Sýnisbók
íslenskrar alþýðumenningar en hún hefur um árabil verið vettvangur birt-
inga á frumgögnum af ýmsu tagi um menningu alþýðunnar. Ritröðin hentar
því vel til birtingar á umræddum gögnum og ekki síst vegna þess að þau
innihalda sýn innlendrar alþýðu á híbýlamenningu á landsbyggðinni um
aldamótin 1900, menningu sem svo að segja hvarf stuttu síðar. Sýslu nefnd -
um, sem fyrst var komið á fót árið 1872, var einmitt ætlað að hafa umsjón
með störfum hreppsnefnda í öllum sýslum landsins, svo sem samgöngum
eða öðru sem sneri að hvers kyns uppbyggingu á landsbyggðinni. Í þeim
sátu heimamenn úr hverri sýslu og hverjum hreppi og þess vegna voru
sýslunefndirnar augljós vettvangur til að safna fyrrnefndum upplýsingum.
Og það merkilega er — enda þótt Hjörleifur segi það ekki beinlínis — að af
svörum sýslunefndanna við spurningum Sigurðar má skýrt sjá að neikvæð
viðhorf til torfbæja voru ekki á rökum reist.
Sigurður náði ekki að vinna úr svörunum sem bárust frá sýslunefndun-
um því hann lést 7. október 1900, sama ár og hann hóf að vinna rannsókn -
ina. Annar verkfræðingur, Jón Þorláksson, var í framhaldinu ráðinn til
Búnaðarfélags Íslands til að halda rannsókn Sigurðar áfram. Jón nýtti á hinn
bóginn aldrei svörin sem safnað var og lognaðist rannsóknin út af. Hjör -
leifur bendir á að Jón hafi verið nýkominn heim úr námi þegar þetta var en
meðan á því stóð hafði hann kynnt sér sementssteypu til húsbygg inga og
hafði mikla trú á henni. Staðsetja má því Jón í hópi framfarasinna sem vildu
ritdómar 207