Andvari - 01.01.1992, Síða 175
ANDVARI
„ÞETTA LÍF VAR HANS"
173
kirkju. Og á meðan á þrautargöngu hans stendur heyrist hann aldrei ákalla
Guð, leggjast á bæn, eða biðja um vernd, sama á hverju gengur. Hann
kemur ekki til byggða fyrr en á annan í jólum. Aldrei heyrist hann þakka
Guði fyrir að bjarga sér úr bráðum háska. Og það er reyndar aldrei gefið í
skyn að Benedikt sé beinlínis að fara þessa ferð af trúarlegum ástæðum, að
þetta sé nokkurs konar pílagrímsför. Einungis að það sé hægt að túlka för-
ina sem þjónustu við Guðs vilja, en ekki að það sé ástæða hennar. Það er
varla hægt að líta á Aðventu sem helgisögu vegna þess að það er hvergi
gefið í skyn að hann njóti handleiðslu Guðs, eða hafi staðist raunir sínar
vegna trúarinnar. Og þegar öllu er á botninn hvolft, af hverju er honum
gert að leggja svona óskaplega mikið á sig? Ekki er það sprottið af iðrun,
vegna þess að hann er svo aumur syndari.
Brotin byrja að falla saman ef litið er á söguna frá sjónarhóli húman-
isma, mannhyggju. Hér hef ég sérstaklega í huga mannhyggju í ætt við þá
sem er að finna í ritum franska heimspekingsins Jean Jacques Rousseaus.4
Húmanistar aðhyllast ekki endilega guðleysi, en þeir viðurkenna ekki að
þeir þarfnist guðlegrar handleiðslu. Sá sem ætlar sér að lifa góðu og rétt-
látu lífi verður að rata hinn þrönga veg eftir sinni eigin bestu vitund. Mað-
urinn einn gefur lífi sínu gildi. í sínu upprunalega, náttúrlega, ástandi er
maðurinn göfugur og syndlaus, yfir honum hvílir helgi sem aðgreinir hann
frá öðrum skepnum jarðar, vegna þess að hann hefur fengið í gjöf frá skap-
ara sínum samvisku, til að elska hið góða, skynsemi, til að greina gott frá
illu, og frelsi, til að velja hið góða. Petta þýðir þó ekki að hann sé dyggðug-
ur frá náttúrunnar hendi. Hver og einn verður að umskapa líf sitt og sam-
skipti við aðra í samræmi við skynsemi sína og samvisku. Pað er vel þekkt
að Rousseau áleit flesta ef ekki alla menn gerspillta fyrir tilverknað ytri
kringumstæðna, uppeldis, þjóðfélags og menningar. Tilgangur stritsins
felst í fullkomnun eigin tilveru í þessu lífi. Eilíf himnavist fæst í kaupbæti,
þ.e.a.s. ef hún stendur yfirleitt til boða."
Það er því mikilvægara að þekkja manninn en að þekkja Guð. Hvað er
líf mannsins, ef ekki . . . - sá vandi sem er falinn bak við þessa spurningu
er sá, að ef það er ekki hægt að trúa á manninn, hvernig getum við leyft
okkur að trúa á Guð? Maðurinn verður sífellt að sannfæra sjálfan sig um
að á bak við óreiðu og grimmd heimsins búi regla sem hann tilheyri og
réttlæti tilveru hans.
V
I sögu sinni, Sœlir eru einfaldir, sem var gefin út 1920, sautján árum fyrr en
Aðventa, var Gunnar Gunnarsson að fást við þennan sama vanda, en með