Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 11
ANDVARI
FRÁ RITSTJÓRA
9
list og leiklist. Þjóðleikhúsið hefur aftur náð stöðu sinni sem þróttmikið
forustuafl í leiklistinni eftir lægð á síðustu árum. Áhugi almennings á tungu
sinni er verulegur og hinir vandaðri og veigameiri fjölmiðlar landsins leitast
við að sýna henni virðingu. Ásókn erlendra tungumála, einkum ensku, er
þó yfirþyrmandi.
Norræn samvinna stendur nú á tímamótum vegna Evrópumálanna, en
hvað sem því líður eru allir sammála um gildi hennar á menningarsviðinu.
Við íslendingar höfum haft mikinn ávinning af henni. Það skýtur því
skökku við að stjórnskipuð nefnd skuli einmitt nú leggja til að dönsku
verði hrundið úr þeim sessi sem hún hefur haft sem það erlenda mál sem
Islendingar læra fyrst í skóla. Dönskukunnátta er grundvöllur þátttöku fs-
lendinga í norrænu samstarfi. Að íslendingar tali við Norðurlandamenn á
ensku og biðji þá að ávarpa sig á því máli er menningarleysi. Nógu sterk er
holskefla enskunnar annars staðar þótt norrænir menn láti hana ekki kom-
ast á milli sín.
Annars eru tillögur nefndar um nýja menntastefnu við það miðaðar að
lengja skólaárið, auka kröfur og aðhald með nemendum. Þetta er vel;
brottfall nemenda úr framhaldsskóla er áhyggjuefni. En ef þessi stefna
verður tekin þarf að snúa alveg við blaðinu og leggja miklu meira fé til
skólamála. Laun kennara verður að stórhækka. Það er staðreynd að þrátt
fyrir allan fagurgala um gildi menntunar hefur á borði verið stýrt eftir allt
öðru gildismati. Er það trúverðugt að þjóð geri sér grein fyrir því að góð
skólamenntun sé lykill farsældar, en skammti síðan því fólki sem bera á
ábyrgð á henni hungurlús að launum? Hvað skyldu annars margir sem
þjóðin hefur menntað til kennslu vera horfnir frá þeim starfsvettvangi á
annan lífvænlegri? Hér blasir við fölsk sjálfsmynd okkar, við viljum telja
sjálfum okkur og öðrum trú um eitt en gerum í reynd allt annað.
í beinu framhaldi af þessu er rétt á fimmtugsafmæli lýðveldisins að hug-
leiða hvað það hefur kostað okkur, mannlega skoðað, að halda uppi hér
norður í höfum því hagsældarþjóðfélagi sem við byggjum. Að því er vikið í
nokkrum erindum í bókinni Tilraunin ísland í 50 ár sem hér hefur verið
vitnað til. Svarsins er að leita í frásögnum um brostið fjölskyldulíf, vaxandi
ofbeldi, eiturefnasölu og önnur afbrot og andfélagslega hegðun ungs fólks.
Þarna er um að ræða skuggahlið hagsældarinnar. Nokkrir greinahöfundar
víkja að efni sem þessu tengist og þeirri framtíðarsýn sem að þessu leyti
hlýtur að vera hrönnuð dökkum bólstrum. Gunnar Karlsson orðar þetta
skilmerkilega í Tilraunin ísland í 50 ár (bls. 16):
„Islendingar standa í slíku menningarsambandi við umheiminn að þeir
gera kröfu til um það bil sömu lífskjara og aðrir Norðurlandabúar. Þeim
hefur hins vegar aldrei tekist að stunda iðnað sem gefur af sér jafnmikinn