Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 54
52
DAVÍÐ ODDSSON
ANDVARI
XIV
Stundum er sagt, að á íslandi sé aumingjadýrkun meiri en annars
staðar þekkist og sú litla þjóð, sem landið byggir, eigi bágt með að
horfa á, að nokkur standi upp úr fjöldanum til lengdar. Vísast eru
slík orð vondur dómur og varla sanngjarn. En hann er ekki heldur
með öllu út í bláinn. Oft heyrðist, að hann Geir Hallgrímsson væri of
flekklaus maður! Hann hlyti að hafa eitthvað misjafnt að fela, þótt
hann feldi það betur en aðrir! Aðrir áttu bágt með að unna honum
þess, að foreldrar hans höfðu af elju og útsjónarsemi vel fyrir sínum
málum séð. Pessi maður, sem fæddur var með silfurskeið í munnin-
um og hafði fengið allan frama á silfurfati, gat ekki verið fær um að
setja sig í annarra spor, hvað þá hugsa af velvild og sanngirni um
annarra velferð. Þannig var skrifað og þó miklu meira skrafað - líka
af sumum samherjum hans. Á íslenskan mælikvarða var Geir í ágæt-
um efnum. Hann barst þó aldrei á og því síður var hann á nokkurn
hátt blindaður af velgengni sinni. Sem borgarstjóri og einnig síðar
var hann óspar á þann tíma sem hann gat nýtt til að hlusta á sjónar-
mið og lýsingar á vandamálum annarra og leitast við að greiða götu
þeirra. Hann var að vísu kröfuharðari til þess að úrræðin væru innan
alls velsæmis en sumir þekktir „fyrirgreiðslupólitíkusar“ hafa verið.
Á löngum ferli hans sem borgarstjóra var honum nánast aldrei núið
neitt misjafnt um nasir, sem er næsta einstætt, þótt fjölmiðlaumræð-
an hafi að vísu ekki verið komin niður á það stig, sem hún er nú á.
Geir bjó við samfelldan áfallalausan pólitískan feril frá 1959 til
1978 og vann stundum glæsta sigra, eins og sigurinn í alþingiskosn-
ingum 1974 og varnarsigurinn í borgarstjórnarkosningum 1970, svo
ekki sé talað um þjóðarsigurinn í landhelgismálum 1976. En ef til vill
reis Geir Hallgrímsson hæst sem stjórnmálamaður árin 1980 til 1983,
þegar mótlætið var hvað mest. Hann gerði sér grein fyrir því, að
hann yrði að leiða flokkinn fram yfir kosningarnar 1983, því að eng-
inn annar var til þess í þingflokki sjálfstæðismanna um þær mundir,
og hann kyngdi hinum beiska bita, sem úrslitin í prófkjörinu í
Reykjavík 1982 voru og kom í kjölfar þess, að Sjálfstæðisflokkurinn
hafði lent í stjórnarandstöðu með varaformann sama flokks leiðandi
ríkisstjórnina. Og hann talaði um fyrir öllum stuðningsmönnum sín-
um, sem vildu láta hart mæta hörðu, þótt það kynni að kosta varan-
legan klofning flokksins. Þegar hér var komið sögu, hafði Geir lagt