Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 75
JÓN Þ. ÞÓR
Fyrstu skref í landhelgismálinu
*
Utfærsla fiskveiðilögsögunnar í fjórar sjómílur
Á þeim fimmtíu árum, sem liðin eru frá stofnun íslenska lýðveldisins, hafa
fá mál skipt jafnmiklum sköpum fyrir afkomu þjóðarinnar og landhelgis-
málið. Á rúmum aldarfjórðungi var fiskveiðilögsagan færð út úr þrem sjó-
mflum í tvö hundruð. Þar með fengu íslensk stjórnvöld lagalegan rétt til
þess að stjórna veiðum á öllum mikilvægustu fiskimiðum við landið. í þess-
ari ritgerð verður fjallað um hina fyrstu þessara útfærslna, forsendur henn-
ar og viðbrögð Breta, sem áttu mestra hagsmuna að gæta allra erlendra
þjóða.
1. Ný viðhorf í hafréttarmálum við lok síðari heimsstyrjaldar
Við lok heimsstyrjaldarinnar síðari urðu miklar breytingar á valdahlutföll-
um í heiminum og fór ekki hjá því, að þær hefðu áhrif á þróun hafréttar-
mála. Forystumenn risaveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna,
litu hafréttarmál að ýmsu leyti öðrum augum en stjórnendur gömlu evr-
ópsku stórveldanna, sem verið höfðu allsráðandi á þessum vettvangi fyrir
styrjöldina. Sama máli gegndi um ýmis ný ríki í þriðja heiminum, og for-
ystumenn lítilla strandríkja ólu þá von í brjósti að með stofnun Sameinuðu
þjóðanna fengju þau vettvang til þess að koma sjónarmiðum sínum á fram-
feri. Árið 1945 tóku Bandaríkjamenn frumkvæði og lögðu grunninn að
nýrri skipan á sviði hafréttar- og landhelgismála.
Hinn 28. september 1945 gaf Harry S. Truman, Bandaríkjaforseti, út tvær
yfirlýsingar um réttindi Bandaríkjanna á eigin landgrunni. í hinni fyrri
kröfðust Bandaríkjamenn lögsagnar og yfirráða yfir náttúruauðlindum á
hafsbotni á landgrunninu út frá ströndum Bandaríkjanna, en í þeirri síðari
var fjallað um fiskveiðar. Báðar áttu yfirlýsingarnar eftir að hafa mikil áhrif
a þróun hafréttarmála á næstu áratugum og er því ekkert ofsagt, þótt sagt
sé, að þær hafi markað tímamót í því efni.